Fara í efni

Heimilisræktun á kartöflum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


  
Áhugi almennings á garðrækt var með mesta móti í vor og má því ætla að víða fáist góð uppskera af kartöflum sem nægt geti fjölskyldunni í nokkrar vikur eða mánuði. Mikilvægt er að geyma þær þannig að nýting verði sem best og sem minnst fari til spillis. Nokkur vandi er á höndum því víða er ekki lengur hægt að leigja sér geymslurými fyrir kartöflur eins og var hér áður fyrr, m.a. í jarðhúsunum við Elliðaár í Reykjavík.

Hýðið veitir kartöflunum mikilvæga vörn og er mjög viðkvæmt á nýjum kartöflum. Það þarf því að gæta þess að særa það sem minnst við alla meðhöndlun.

Ef kartöflur eru teknar upp í þurru veðri og úr hæfilega rökum jarðvegi er ekki þörf á að þurrka þær heldur nægir að láta lofta um poka eða kassa meðan á upptöku stendur. Annað gildir ef tekið er upp úr blautum jarðvegi, tekið upp í rigningu eða ef kartöflurnar eru þvegnar þá er rétt að þurrka þær. Best er að dreifa þeim varlega á undirlag sem dregur í sig raka. Ef blaut kartafla er sett á plastdúk stendur hún í lengri tíma í vatnspolli og er það ávísun á skemmd. En má þvo kartöflur? Almenna reglan er sú að ekki á að þvo kartöflur nema rétt fyrir neyslu vegna þess að þvottur dregur úr geymsluþoli. Hins vegar má þvo kartöflur með góðum árangri ef þess er gætt að skadda hýðið sem minnst við þvottinn og  þurrka þær hratt og vel á eftir. Dæmi eru um að menn hafi eyðilagt uppskeruna með því nánast að spúla hýðinu af og láta síðan kartöflurnar standa í vatni á plastdúk á eftir.

Kartöflur verða grænar í birtu og það ber að forðast eins og hægt er. Dökkgrænar kartöflur á ekki að borða enda geta þær verið bragðvondar og óheilnæmar. Ef kartaflan er með afmarkaðan, dökkgrænan blett upp úr garðinum er þó óþarfi að henda henni heldur má skera blettinn úr. Ef kartöflur eru þurrkaðar skal það gert fjarri sólarljósi á sem stystum tíma og geyma þær eftir það í myrkri. Velja skal skuggsælan stað og breiða yfir þær ef þörf er á til að útiloka birtuna. Ef dökkur plastdúkur er notaður er gott að hafa eitthvað undir honum sem dregur í sig rakann því annars er hætt við rakaþéttingu undir plastinu. Kartöflur eru lifandi og þurfa því súrefni til öndunar. Því hærri hiti því betur þarf að lofta um þær. Kartöflur geta kafnað og rotnað í lokuðum plastpoka við háan hita.

Fyrst eftir upptöku eru kartöflurnar í dvala. Þær spíra ekki jafnvel þótt þær séu geymdar við háan hita, en því hærri sem hitinn er, því fyrr rofnar dvalinn og þær spíra. Æskilegt er að geyma kartöflur við góðan hita fyrstu 2 vikurnar, t.d. 12-15 gráður,  því þá gróa sárin fyrr en eftir það þarf að ná hitanum niður. Þeir sem þurfa að geyma kartöflur fram á næsta vor reyna að ná hitanum niður í 3-4 gráður. Ekki er æskilegt að fara neðar því þá er hætta á frostskemmdum og hætt er við að kartöflurnar verði sætar þegar hitinn nálgast frostmarkið.

Það á ekki að vera vandamál að geyma kartöflurnar fyrsta mánuðinn ef þess er gætt að birta komist ekki að þeim. Þótt þær byrji að spíra eru þær ekki ónýtar og má brjóta spírurnar af. En markmiðið hlýtur að vera að geyma þær sem lengst án þess að þær spíri og hver og einn verður að sjá út hvaða leiðir eru færar til þess. Hægt er að geyma eitthvert magn í kæliskáp, á svölum stað innan dyra eða í einangraðri geymsluaðstöðu úti en gæta þarf þess að kartöflur frjósi ekki.


Getum við bætt efni síðunnar?