Fara í efni

Hámark transfitusýra í matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Ný reglugerð nr. 1045/2010 um hámark transfitusýra í matvælum tók gildi hinn 1. ágúst 2011. Ísland er fjórða Evrópulandið á eftir Danmörku, Austurríki og Sviss sem setur sérstaka reglugerð um takmörkun á þessari gerð fitusýra í matvælum.


  
Hámarksgildin sem reglugerðin nær til eiga við um transfitusýrur í matvælum og gildir einu hvort þær eru sérstakt innihaldsefni, innihaldsefni í öðrum unnum matvælum sem notuð eru í framleiðsluna eða myndist í framleiðsluferlinu sjálfu.

Takmörkun á transfitusýrum í matvælum byggir á fjölmörgum rannsóknum sem hafa sýnt fram á að neysla á transfitusýrum eykur, mun meira en inntaka á annarri harðri fitu, líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. Því er litið á þessa reglusetningu sem mikilvægt skref í heilsuvernd fyrir allan almenning.

Helstu atriði reglugerðarinnar eru eftirfarandi:


  • Reglugerðin gildir um fitu og önnur matvæli sem innihalda fitu annað hvort sem innihaldsefni eða sem hefur myndast við framleiðslu þeirra, t.d. í djúpsteiktum matvælum eins og frönskum kartöflum.
  • Reglugerðin nær ekki til transfitusýra sem eru í dýrafitu frá náttúrunnar hendi, t.d. í smjöri eða mjólkurvörum.
  • Reglugerðin nær til markaðssetningar matvæla til neytenda.
  • Samkvæmt reglugerðinni má innihald transfitusýra ekki fara yfir 2 grömm af hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni.
  • Matvælafyrirtæki ber að leggja fram mælingar um magn transfitusýra ef þess er óskað af opinberum eftirlitsaðila.
  • Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga fer með markaðseftirlitið.
  • Matvælastofnun annast samræmingu bæði á rannsóknum sýna og eftirlitsaðgerðum.
  • Reglugerðin öðlast gildi hinn 1. ágúst 2011 og er óheimilt eftir þann tíma að markaðssetja matvæli sem eru ekki í samræmi við hana.


Gildissvið reglugerðarinnar


Reglugerðin gildir um fitu (þ.m.t. olíu, fitu og ýrulausnir) og önnur matvæli sem innihalda fitu, bæði sem innihaldsefni og sem myndast í framleiðslu. Franskar kartöflur (og önnur djúpsteikt matvæli) geta t.d. innihaldið transfitusýrur úr steikingarfitunni sem þær eru steiktar í.

Þær transfitusýrur sem náttúrulega finnast í lamba- og nautakjöti sem og í mjólkurfitu jórturdýra, þ.e.a.s. í mjólk og mjólkurafurðum falla ekki undir gildissvið reglugerðarinnar.

Reglugerðin gildir aðeins um lokaafurðir, þ.e.a.s. eins og þær eru seldar til neytenda, þ.m.t. mat á veitingahúsum en ekki um hráefnisframleiðslu til matvælaiðnaðar.

Markaðssetning

Óheimilt er að markaðssetja matvæli sem innihalda meira en 2% transfitusýra eða 2 grömm af transfitusýrum í hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni. Þetta er sama markgildi og sett var á sínum tíma í Danmörku.

Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að þetta magn sé nægilega hátt til að geta tekið tillit til náttúrulegra transfitusýra í matvælum en á sama tíma er það nægilega lágt til að ná manneldismarkmiðum, m.a. ráðleggingum Alþjóða heilbrigðismálastofnunar (WHO) um að neysla transfitusýra sé ekki hærri en 1% af daglegri orkuinntöku.

Skyldur matvælafyrirtækis

Opinberir eftirlitsaðilar geta farið fram á að matvælafyrirtæki leggi fram niðurstöður úr greiningum á magni transfitusýra í framleiðsluvörum sínum til staðfestingar á því að það sé undir leyfilegu hámarki. Krafa er gerð um transfitusýrugreiningar ef rökstuddur grunur liggur fyrir um að matvæli séu ekki í samræmi við reglugerðina. Fitusýrugreiningar þurfa að koma frá viðurkenndum greiningaraðilum og skulu matvælafyrirtækin bera kostnað af greiningu sýna.

Matvælafyrirtæki þurfa að uppfylla kröfur um góða starfshætti sem varða matvæli enda eru það mikilvægir þættir í innra eftirliti þeirra. Öll matvælafyrirtæki skulu uppfylla kröfur um innra eftirlit og er það gert til fyrirbyggja að matvæli geti valdið neytendum heilsutjóni en jafnframt til að tryggja að matvæli séu að öllu öðru leyti í samræmi við ákvæði matvælalaga og reglugerða.

Í þessu ferli er afar mikilvægt að halda skrá um öll hráefni sem notuð eru við matvælaframleiðsluna. Viti stjórnendur fyrirtækja hvernig varan er samsett geta þeir gert sér betur grein fyrir því hvort þörf er á breytingum á framleiðsluuppskriftum í kjölfar nýrrar reglugerðar um hámark transfitusýra. Ef skráning hráefna er vel úr garði gerð má treysta því að útreikningar um magn transfitusýra í vöru eða matvælum séu réttir. Gera má mælingar á fitusýrum til stuðnings útreikningunum og hafa margir matvælaframleiðendur nýtt sér þessa möguleika fyrir framleiðslu sína.

Eftirlit

Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga, undir yfirumsjón Matvælastofnunar, fer með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt. Matvælastofnun skal annast samræmingu rannsókna vegna sýna.

Eftirlit með því að reglum um hámark transfitusýra í matvælum sé framfylgt er líkt og með aðra matvöru á markaði í höndum heilbrigðiseftirlits sveitafélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar. Hlutverk Matvælastofnunar er að samræma rannsóknaraðferðir við mælingu transfitusýra í matvörum. Þetta er mikilvægt þar sem nauðsynlegt er að geta borið saman niðurstöður mælinganna eða greininganna og tekið saman niðurstöður fyrir allt landið.



Getum við bætt efni síðunnar?