Fara í efni

Haldlagning dýralyfs réttmæt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Af gefnu tilefni er rétt að upplýsa að Matvælastofnun lagði þann 3. apríl sl. hald á ómerkt lyfseðilsskylt dýralyf á bæ í Hrunamannahreppi. Öll lyfseðilsskyld lyf ber að merkja í samræmi við gildandi reglur um afgreiðslu lyfja, áritun þeirra og afhendingu. Í umræddu tilviki vantaði nauðsynlegar merkingar á lyfjaglasið. Eftirlitsdýralæknir upplýsti á staðnum að hald yrði lagt á umrætt lyf.

Í 11. gr. reglugerðar nr. 91/2001 um afgreiðslu lyfseðla, áritun og afhendingu lyfja segir: ,,Áritunarmiði lyfjabúðar má ekki hylja merkingar lyfs og skal að jafnaði vera á innstu umbúðum“, þ.e.a.s. á lyfjaglasinu sjálfu. Þá segir í 12. gr.:


Eftirfarandi atriði skulu koma fram á áritunarmiða lyfjabúðar, þegar lyf eru afhent gegn lyfseðli:


1. Nafn sjúklings. Sé um dýr að ræða skal koma fram auðkenni þess og nafn eiganda.
2. Fyrirmæli læknis um notkun lyfs.
3. Læknanúmer útgefanda og þar fyrir framan standi „Lnr.“.
4. Dagsetning afgreiðslu lyfs.
5. Heiti lyfjabúðar.


Í 15. gr. reglugerð nr. 30/2012 um eftirlit með efnaleifum í afurðum dýra segir:  Ef óleyfileg efni eða afurðir eða efni í A-flokki og í 1. og 2. tölul. í B-flokki I. viðauka finnast í fórum þeirra, sem hafa ekki tilskilin leyfi, skal Matvælastofnun leggja hald á þau. Umrætt lyf fellur undir flokkinn lífræn fosfórsambönd og er B-flokki I viðauka. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja að fullnægjandi eftirlit sé haft með efnum og flokkum efnaleifa (þ.m.t. lyfjaleifa) í afurðum dýra og stuðla þannig að aukinni neytendavernd.

Ofangreindar upplýsingar komu ekki fram á umræddu lyfjaglasi. Engar merkingar var að finna um hver afhenti lyfið og hvenær og bar Matvælastofnun því að taka umrætt lyf í sína vörslu. Ásakanir þess efnis að dýralæknir hafi tekið glasið ófrjálsri hendi eru með öllu tilhæfulausar.


Getum við bætt efni síðunnar?