Fara í efni

Greiðslur vegna tjóns á korni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Næsta haust munu bændur geta sótt um stuðningsgreiðslur ef gæsir og álftir valda tjóni á haustuppskeru á korni árið 2019 með ágangi. Bætur vegna tjóns af völdum ágangs álfta og gæsa á öðru ræktunarlandi bænda verða síðan innleiddar í skrefum á næstu árum skv. innleiðingaráætlun sem Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafa samið.

Sem fyrr segir gerir innleiðingaráætlunin ráð fyrir að greitt verði fyrir tjón á þroskuðu korni árið 2019, en árið 2020 verður bætt fyrir allt tjón sem álftir og gæsir kunna að valda á kornökrum, frá sáningu og fram að uppskeru. Árið 2021 verður stuðningur veittur vegna tjóns á grasi og grænfóðri fram til 1. maí (vorbeit), en árið eftir muni það ná til haustsins. Að lokum er stefnt að því að hefja stuðningsgreiðslur vegna tjóns á útiræktuðu grænmeti og olíujurtum árið 2023.

Búnaðarstofa Matvælastofnunar annast greiðslur á stuðningsgreiðslunum. Stuðningur verður reiknaður út frá meðalkostnaði við ræktun hvers hektara og hlutfallslegu tjóni á tjónaskýrslu sem er staðfest af úttektaraðila búnaðarsambanda. Allt tjón á uppskeru sem er metið meira en 20% nýtur stuðnings, og ber framleiðandi ábyrgð á 20% af staðfestu tjóni. Búnaðarstofa ákvarðar árlegan meðalkostnað við ræktun, sem er grunnurinn að útreikningi á stuðningi.

Úttektaraðili metur umfang tjóns skv. verklagsreglum samþykktum af Umhverfisstofnun og Matvælastofnun og sannreynir tjón með vettvangsúttekt eða ljósmyndum. Úttektaraðili leiðbeinir framleiðendum um forvarnir gegn ágangi álfta og gæsa.

Stuðningur vegna ágangs álfta og gæsa nemur að hámarki 5% af árlegri heildarupphæð jarðræktarstyrks samkvæmt fjárlögum.

Framleiðendur sem verða fyrir tjóni á kornuppskeru haustið 2019 skulu stofna rafræna tjónaskýrslu inni á Bændatorginu um leið og tjóns verður vart, eigi síðar en 20. október nk. Í tjónaskýrslu skal gerð grein fyrir stærð spildu eða spilduhluta sem orðið hefur fyrir tjóni og henni skulu fylgja ljósmyndir. Í kjölfarið er mikilvægt að framleiðandi tilkynni úttektaraðila hvenær áætlað er að uppskera fari fram með nægilegum fyrirvara svo úttektaraðili geti tekið út og staðfest endanlegt tjón.


Getum við bætt efni síðunnar?