Fara í efni

Greining riðusýna í Miðfjarðarhólfi

Þær niðurstöður sem komnar eru vekja vonir um að útbreiðsla riðuveiki í Miðfjarðarhólfi sé ekki mikil og því brýnt að hefta hana með fumlausum viðbrögðum. Í því sambandi er mikilvægast að taka mögulega smitbera úr umferð eins fljótt og auðið er.

Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum hefur nú greint um þriðjung sýna (234 sýni) sem tekin voru í tengslum við niðurskurð vegna riðuveiki á Bergsstöðum og tæplega helming sýna (342 sýni) frá Syðri-Urriðaá. Riðusmit hefur verið staðfest í um 6% sýna frá Bergstöðum en smitefnið hefur ekki greinst í neinu sýni frá Syðri-Urriðaá enn sem komið er, að undanskildu sýni frá einni á sem flutt hafði verið þangað frá Bergsstöðum haustið 2020.

Ekki er hægt að álykta út frá framangreindum niðurstöðum að riða hafi ekki náð að breiðast út í hjörðinni á Syðri-Urriðaá. Fullvíst er að hjörðin var útsett fyrir smitefninu, því ærin frá Bergsstöðum gekk í hjörðinni í þrjá vetur og óhugsandi annað en að hún hafi mengað umhverfi hjarðarinnar og smitað einhverjar ær með beinum hætti. Niðurstöðurnar sýna fyrst og fremst að á Syðri-Urriðaá hafi fáar kindur, ef einhverjar, verið langt komnar á meðgöngutíma sjúkdómsins. Þróun sjúkdómsins hafi því verið skemmra á veg komin en á Bergsstöðum og mögulega hafi smitefnið ekki verið búið að magnast upp með sama hætti.

Meðgöngutími sjúkdómsins er oftast 1,5 til 2 ár, en getur verið mun lengri. Mest allan þann tíma leynist smitefnið í eitlum meltingafæranna og víðar í líkamanum, magnast þar upp og er skilið út með skít, munnvatni og legvatni. Það er ekki fyrr en stuttu áður en einkenni sjúkdómsins koma fram að mögulegt er að greina smitefnið í miðtaugakerfinu með sýnatöku úr mænukylfu og litla heila. Því er varhugavert að draga of sterkar ályktanir út frá neikvæðum niðurstöðum á meðan jákvæðar niðurstöður eru mjög öruggar.

Það er á ábyrgð sérhvers sauðfjárbónda að gera allt sem í hans valdi stendur til að verja hjörð sína smiti og ekki síður að koma í veg fyrir að kindur í hans eigu smiti aðrar hjarðir. Engum dylst að það er mikið áfall fyrir sauðfjárbónda þegar riðuveiki greinist í hans hjörð og allir sem að málum koma finna til samkenndar með þeim bændum. Bændurnir á Bergstöðum og Syðri-Urriðaá hafa sýnt mikið hugrekki, axlað ábyrgð og verið samvinnufúsir í yfirstandandi aðgerðum. Matvælastofnun hvetur þá bændur sem keyptu fé frá Syðri-Urriðaá og enn hafa ekki samþykkt að afhenda stofnuninni þær kindur, eins og reglugerð kveður á um, samþykki það sem fyrst.

Riðuveiki veldur sársaukafullum taugaskaða í miðtaugakerfi sauðfjár og það er skylda okkar að hindra útbreiðslu svo alvarlegs sjúkdóms.

Tengiliður: Sigurborg Daðadóttir, Yfirdýralæknir

 

 

 

 

 

 

 


Getum við bætt efni síðunnar?