Fara í efni

Greining á smitandi lifrardrepi í kanínum staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Rannsóknir á lifrarsýnum úr kanínum, sem drápust í Elliðaárdal nýlega, hafa staðfest að orsök dauðans er smitandi lifrardrep og að veiran sem í hlut á er RHDV2 (Rabbit Hemorhagic Disease Virus 2).

Veiran er harðger og lifir lengi í náttúrunni í lífrænum úrgangi. Veiran smitar auðveldlega og getur einnig borist hratt á milli svæða með villtum fuglum, öðrum dýrum eða fólki. Veiran getur þó einungis smitað kanínur en ekki fólk né önnur dýr.

Mikilvægt er fyrir fólk sem á kanínur heima að forðast að ferðast um á þekktum smitsvæðum, svo sem í Elliðaárdalnum, og gæta smitvarna eins og hægt er heima fyrir með því að minnka umgang ókunnugra við kanínurnar og viðhafa ýtrustu smitvarnir við aðbúnað, fóðrun og umhirðu þeirra. 

RHDV2 afbrigði veirunnar var fyrst uppgötvað í Frakklandi árið 2010 en hefur verið að breiðast út víða um heiminn. Síðustu ár hefur farið fram þróun á bóluefni gegn RHDV2 stofninum, en bóluefni gegn RHDV1 sem var fyrir á markaði dugar ekki gegn RHDV2. Bóluefni eingöngu gegn RHDV2 er nýlega komið á markað. Til viðbótar hefur  Lyfjastofnun Evrópu (European Medicines Agency, EMA) gefið út markaðsleyfi í Evrópusambandslöndunum fyrir bóluefni gegn báðum RHDV stofnunum í nóvember 2019, en bóluefnið er enn ekki komið á almennan markað Evrópu. Matvælastofnun hefur leitað til lyfjainnflytjenda að kanna möguleika á að flytja inn bóluefni, svo kanínueigendur geti varið dýr sín fyrir þessum skæða sjúkdómi.

Ítarefni

Uppfært 31.03.20 kl. 16:07


Getum við bætt efni síðunnar?