Fara í efni

Greinargerð Matvælastofnunar um Norræna Skráargatið

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
  Nokkur umræða hefur verið að undanförnu um norræna hollustumerkið Skráargatið og vill Matvælastofnun nota tækifærið til að upplýsa almenning um Skráargatið og stöðu málsins á Íslandi.

Skráargatið er hollustumerki sem notað er á umbúðum matvæla og einkennir matvörur með tilliti til hollustugildis þeirra. Heilsusamlegir eiginleikar varanna eru skilgreindir út frá næringargildi þeirra og hvaða áhrif næringarefnasam-setningin hefur á heilsu neytenda. Skilyrðin sem sett eru fyrir Skráargatinu byggja á samnorrænu næringarráð-leggingunum og er Ísland virkur þátttakandi í þessu vísindasamstarfi.

Ráðleggingar Landlæknisembættisins endurspegla þessar ráðleggingar sem ganga út á að fólk eigi að leitast við að neyta fituminni matvæla, sérstaklega takmarka fitu í unnum kjötvörum, takmarka neyslu á salti og forðast sykraðar vörur en auka neyslu á trefjaríkum vörum, til að mynda vörum ríkum af heilu korni. Það má segja að vörur sem bera Skráargatið endurspegli í öllum grundvallaratriðum hollustumarkmið Landlæknisembættisins.

Vegna þess að merkið er tákn fyrir holl matvæli þurfa neytendur að geta treyst á trúverðugleika þess. Þess vegna er afar mikilvægt að setja reglugerð um Skráargatið þar sem öll skilyrðin fyrir notkun merkisins eru tekin saman og útskýrð á ítarlegan hátt. Æskilegt er að öll umsýsla og eftirlit með notkuninni sé á vegum opinberra aðila, þ.e. Matvælastofnunar og Heilbrigðiseftirlits sveitafélaganna. Slík reglugerð er ekki aðeins til að tryggja rétta notkun Skráargatsins heldur stuðlar hún að auknum trúverðugleika merkisins gagnvart neytendum.

Neytendasamtökin hafa frá því á árinu 2008 hvatt yfirvöld til þess að taka upp hollustumerkið Skráargatið en það var ekki fyrr en í byrjun árs 2011 þegar þingsályktunartillaga var lögð fram um upptöku Skráargatsins hér á landi (Þskj. 831, 508. mál og 22, 22. mál) að málið var formlega tekið til umfjöllunar.

Til þess að hægt sé að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið hérlendis þarf að veita ráðherra þær lagaheimildir sem nauðsynlegar eru til þess að setja reglugerð um notkun þess. Atvinnuveganefnd Alþingis hefur fengið það verkefni að fjalla um Skráargatsmálið og er það nú í vinnslu. Í tengslum við þessa vinnu óskaði nefndin umsögn um tillöguna frá mismunandi samtökum og félögum. Umsagnir sem bárust voru almennt jákvæðar og má sjá þær allar á heimasíðu Alþingis.

Matvælastofnun birtir nú greinargerð um hollustumerkið Skráargatið. Tilgangur hennar var að vega og meta Skráargatið sem mögulegt hollustumerki fyrir íslenskan matvælamarkað. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið óskaði eftir því að stofnunin kynnti sér málið og tæki afstöðu til þess hvort Ísland ætti að taka þátt í samstarfi Norðmanna, Svía og Dana um sameiginlegt norrænt hollustumerki, Skráargatið.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?