Fara í efni

Glýfosat í morgunkorni

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í frétt bandarísku umhverfisverndarsamtakanna EWG sem birtist í vikunni er skýrt frá því að virka efnið í illgresiseyðinum Roundup, glýfosat (glyphosate), finnist í mörgum þekktum matvörum, einkum í morgunkorni. Magn glýfósats í þessum vörum er langt undir leyfilegum hámarksgildum í Evrópu. Samkvæmt áhættumati Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) frá því í maí sl. stafar neytendum ekki hætta af glýfosati í matvælum á evrópskum markaði í því magni sem það finnst í matvælum.

EFSA safnar niðurstöðum úr glýfosat mælingum aðildarríkja Evrópusambandsins á hverju ári. Nýjustu niðurstöður eru frá árinu 2016 en þá var tekið 6.761 sýni frá 26 löndum Evrópu. Glýfosat greindist yfir leyfilegum mörkum í 19 sýnum eða 0,28% sýnanna. Það greindist ekki glýfosat í 96,4% sýnanna, þ.e.a.s. glýfosat var ekki til staðar eða í svo litlum mæli að það var ekki hægt að magngreina það.

Byggt á þessum niðurstöðum gaf EFSA út áhættumat í maí 2018 um glýfosat í fæðu Evrópubúa. EFSA telur að það magn sem neytendur innbyrða með matvælum á markaði í Evrópu sé ekki skaðlegt heilsu manna. 

Í rannsókn umhverfissamtakanna EWG voru tekin 45 sýni af hefðbundnum kornvörum og 16 sýni af lífrænum kornvörum. Hæstu gildin voru 1,3 ppm (1.300 ppb) af glýfosati. Öll gildi nema tvö voru undir 0,8 ppm. Skv. reglum Evrópusambandsins eru hámarksgildi 20 ppm í höfrum og 10 ppm í rúg og hveiti. 

Þessi gildi gefa ekki tilefni til að vara við neyslu á þessum vörum, hvorki fyrir fullorðna né fyrir börn, eða innkalla þær af markaði út frá viðmiðum EFSA og Evrópusambandsins.

Glýfosat er leyft til notkunar á Íslandi. Umhverfisstofnun veitir markaðsleyfi og fer með eftirlit með innflutningi, dreifingu og markaðssetningu plöntuverndarvara. Árið 2016 tók Matvælastofnun þrjú sýni af innlendum kornvörum til greiningar á glýfósati. Ekkert glýfósat fannst í vörunum.

Glýfosat er virka efnið í illgresiseyðinum Roundup sem notað er við ræktun á erfðabreyttum soja- og korntegundum. Erfðabreytingin gerir plönturnar þolnar fyrir illgresiseyðinum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?