Fara í efni

Gæði neysluvatns á Íslandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur birt skýrslu um niðurstöður eftirlits á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga með gæðum neysluvatns á árunum 2002-2012. Skimað var fyrir örverum, lífrænum eiturefnum og þungmálmum og sýna niðurstöðurnar að neysluvatn á Íslandi er almennt mjög gott en að úrbóta sé þörf í sumum tilfellum hjá minni vatnsveitum, einkum litlum einkaveitum. Jafnframt sýna niðurstöðurnar að gæði neysluvatns hafa aukist á tímabilinu.

Í skýrslunni eru teknar saman niðurstöður 345 heildarúttekta og 8.931 sýnis sem tekin voru vegna reglubundins eftirlits á árunum 2002-2012. Heildarúttektir sem felast í víðtækri skoðun á efna-, eðlis- og örverufræðilegum gæðum vatns eru einkum framkvæmdar hjá vatnsveitum sem þjóna fleirum en 500 íbúum. Reglubundið eftirlit sem felst í skoðun á örverum, ammoníum, sýrustigi, leiðni, bragði, lit og lykt er framkvæmt reglulega hjá öllum eftirlitsskyldum vatnsveitum litlum sem stórum.

Efna- og eðlisfræðilegt ástand neysluvatns á Íslandi er almennt mjög gott og sjaldgæft að óæskileg efni séu yfir leyfðu hámarksgildi. Lífræn eiturefni og þungmálmar sem voru mæld í sýnum teknum á árunum 2002-2012 uppfylltu kröfur neysluvatnsreglugerðar í 99,9% mælinga.

Þegar litið er til örveruástands á sama tímabili sýna niðurstöður sýna sem tekin voru vegna heildarúttekta að 98,7% sýna uppfylltu reglugerð m.t.t. E.coli. Við reglubundið eftirlit reyndust hins vegar 94% sýna uppfylla reglugerð m.t.t. E. coli og gefa niðurstöðurnar til kynna að örveruástand vatns sé betra hjá stærri vatnsveitum.

Út frá niðurstöðum mælinga áranna 2010-2012 var jafnframt unnt að bera saman örveruástand neysluvatns miðað við stærð vatnsveitna. Yfir 99% sýna sem tekin voru á þessu tímabili hjá vatnsveitum sem þjóna fleirum en 500 íbúum uppfylltu reglur um neysluvatn hvað varðar E.coli. Hins vegar greindist E.coli  í 6,5% sýna frá vatnsveitum sem þjóna 500 íbúum eða færri. Þar er ástandið þó verra hjá litlum einkaveitum sem þjóna færri en 50 samanborið við vatnsveitur sem þjóna 50-500 íbúum. Þegar á heildina er litið var ástandið lakast á Austurlandi og Vestfjörðum á þessu tímabili, en þar er mun erfiðara að nálgast grunnvatn en í öðrum landshlutum.

Þegar litið er á tímabilið frá 2002 til 2009  kemur í ljós að E. coli greindist í 6,9% sýna frá öllum eftirlitsskyldum vatnsveitum samanborið við 3,4% sýna árin 2010 til 2012. Því er ljóst að mikill árangur hefur náðst við að bæta vatnsgæði þótt enn sé ýmislegt óunnið. Ljóst er að það eru einkum sumar af minni vatnsveitunum sem síður uppfylla kröfur í neysluvatnsreglugerð og vinna þarf að úrbótum. Jafnframt þarf að samræma aðferðafræði við úttektir á vatnsbólum, innra eftirliti vatnsveitna og skráningu sýna.

Skýrslan var unnin fyrir Matvælastofnun af Maríu J. Gunnarsdóttur og Sigurði Magnúsi Garðarssyni hjá Vatnaverkfræðistofu Háskóla Íslands.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?