Fara í efni

Fyrsta fyrirtækið í frammistöðuflokk A

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur nýverið tekið upp  áhættu- og frammistöðuflokkunarkerfi til að meta eftirlitsþörf matvæla- og fóðurfyrirtækja með samræmdum hætti svo hægt sé beina eftirlitinu frekar á þá staði þar sem þess er þörf.  Markmiðið er bætt neytendavernd.  Fyrirtæki eru  ekki aðeins flokkuð út frá áhættu  heldur er einnig horft til niðurstöðu þeirra í undangengnu eftirliti og þau flokkuð út frá því í þrjá flokka A, B og C. Þegar kerfið var tekið í notkun um mitt þetta ár voru öll fyrirtæki grunnflokkuð í frammistöðuflokk B. Fyrirtæki sem standa sig vel og hafa virkt innra eftirlit með starfseminni geta síðan færst í frammistöðuflokk A og fá þá í kjölfarið minna eftirlit af hálfu Matvælastofnunar. Fyrirtæki sem standa sig ekki eins vel þurfa hins vegar að sæta tíðari skoðunum þar sem eftirlitsþörf er metin meiri. Við það að færast úr frammistöðuflokki B í A þá helmingast grunneftirlitsþörf fyrirtækisins. Falli fyrirtæki hins vegar niður í frammistöðuflokk C þá eykst grunneftirlitsþörf þess um 50%.

Þau fyrirtæki sem hafa fengið að lágmarki tvær reglubundnar úttektir Matvælastofnunar frá því að kerfið var tekið upp þ. 1.7.2012, munu færast í frammistöðuflokk A, hafi þau verið með virkt innra eftirlit og fáar eða engar athugasemdir verið gerðar í úttektunum.

Nú hefur fyrsta fyrirtækið verið flutt í frammistöðuflokk A samkvæmt þessu nýju kerfi. Fleiri munu fylgja í kjölfarið og er það fagnaðarefni að hvatningaráhrif kerfisins komi svo fljótt í ljós.

Áhættu- og frammistöðuflokkunin nær til allra fyrirtækja sem framleiða  matvæli úr dýraríkinu og fóður og eru undir  lögbundnu eftirliti Matvælastofnunar. Fyrirhugað er að sambærilegt kerfi verði tekið upp fyrir allt matvælaeftirlit í landinu frá og með 1. janúar 2014. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?