Fara í efni

Fyrirhugaðar aðgerðir vegna brota á skilyrðum um sóttkví fyrir búrfugla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í dag tilkynnti Matvælastofnun innflytjendum búrfugla um þá ákvörðun sína að draga tilbaka heimild til innflutnings á búrfuglum sem verið hafa í sóttkví síðan í febrúar. Ástæðan eru ítrekuð brot innflytjanda á þeim skilyrðum sem sett voru fyrir innflutningnum. 

Við nýlega skoðun Matvælastofnunar kom í ljós að um þriðjung af þeim fuglum sem áttu að vera eftir í sóttkvínni vantaði og að innflytjandi hafði ekki gert grein fyrir afdrifum þeirra. Til stóð að aflífa þá fugla sem eftir voru í sóttkvínni í dag en innflytjandi neitaði starfsfólki Matvælastofnunar um aðgang. Lögregla var kölluð til en mun væntanlega skera úr um aðgang Matvælastofnunar að sóttkvínni á morgun. Hér er um að ræða sóttkví sem heyrir undir eftirlit Matvælastofnunar skv. reglugerð 432/2003 um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr. Með því að meina stofnuninni um aðgang er komið í veg fyrir að stofnunin geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu um smitvarnir.

Matvælastofnun gaf út skilyrt innflutningsleyfi fyrir 328 fuglum 13. febrúar sl. Fuglarnir komu til landsins 14. febrúar og reyndust þá vera 358. Þeir hafa síðan verið í sóttkví í húsakynnum innflytjanda, samkvæmt fyrirmælum stofnunarinnar. Meðal skilyrða sem gilda um slíka sóttkví er að komi upp veikindi eða slys hjá fugli skuli tilkynna það til Matvælastofnunar svo fljótt sem auðið er. Jafnframt er tekið fram að ef fugl drepst í sóttkví skuli hann krufinn. Við eftirlit í sóttkvínni sl. föstudag kom í ljós að fjöldi fugla var aðeins 232, sem er 126 fuglum færra en í upphafi. Innflytjandi hafði aðeins tilkynnt um einn dauðan fugl til Matvælastofnunar en afhent samtals 13 hræ í eftirlitsheimsóknum stofnunarinnar. Auk þess höfðu þrír fuglar verið aflífaðir í rannsóknartilgangi. Um afdrif 110 fugla er því ekki vitað en að sögn innflytjanda höfðu þeir drepist og hræjum þeirra þegar verið eytt í sorpbrennslustöð. Með því að fara leynt með fugladauðann hefur innflytjandi komið í veg fyrir að rannsókn á orsökum hans geti farið fram. Það er því álit Matvælastofnunar að um alvarlegt brot á skilyrðum innflutningsheimildar sé að ræða. Stofnunin hefur kannað möguleika á að senda fuglana aftur til upprunalandsins en það krefst vottunar á heilbrigði fuglanna sem er í ljósi hárrar dauðatíðni ekki hægt að gefa út. Því sér stofnunin þann eina kost í stöðunni að aflífa þá fugla sem eftir eru í sóttkvínni.

Í vetur, stuttu eftir komu fuglanna, greindist mítillinn Ornithonyssuss sylviarium á fugli sem hafði drepist í sóttkvínni. Það sníkjudýr hefur ekki fundist á fuglum hér á landi. Hann getur haft alvarleg áhrif á heilsu og velferð fugla og því mikilvægt að koma í veg fyrir að hann berist til landsins. Í ljósi þess að ekki er hægt að tryggja útrýmingu mítilsins með meðhöndlun, ákvað Matvælastofnun að hafna innflutningi á þessum fuglahópi og gaf innflytjanda kost á að flytja fuglana úr landi eða aflífa þá. Sú ákvörðun var kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan beðið var endanlegs úrskurðar í því máli, sem er skýringin á því að fuglarnir voru enn í sóttkví. Ákvörðun Matvælastofnunar nú byggir hins vegar á ítrekuðum brotum innflutningsaðila á skilyrðum innflutningsleyfis sem stofnunin hafði gefið út.



Getum við bætt efni síðunnar?