Fara í efni

Furuhnetur tengdar beisku eftirbragði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.



  Matvælastofnun hefur haft spurnir af furuhnetum sem valda bitru eftirbragði hjá sumum sem hafa neytt þeirra. Hneturnar eru ekki taldar varasamar eða hættulegar heilsu og ekki finna allir sem borða sömu furuhneturnar fyrir þessum bragðáhrifum.

Þetta lýsir sér í minnkuðu bragðskyni og málmkenndu, bitru eftirbragði í munni sem hefst 1-2 dögum eftir neyslu furuhneta og hverfur oftast innan nokkurra daga. Áhrifin eru breytileg frá manni til manns og ekki finna allir sem borða af sama hnetuskammtinum fyrir þessu. En dæmi eru um að það standi allt að 2 vikur.  Þetta á einungis við furuhnetur upprunnar í Asíu.

Mál þetta hefur komið upp í nokkrum evrópulöndum og  hafa verið gerðar viðamiklar greiningar á furuhnetunum meðal annars á varnarefnaleifum og þungmálmum án þess að skaðleg efni finnist. Poison Centre í Belgíu rannsakaði þetta fyrirbrigði árið 2001 án þess að finna ástæðu bitra bragðsins.

Það er á ábyrgð framleiðanda/innflytjanda að tryggja að vörur sem hann selur standist reglur um matvæli. Það felur í sér að vörurnar skulu vera öruggar til neyslu og að merkingar séu réttar og einnig að furuhnetur uppfylli þær hefðbundnu gæðakröfur sem markaðurinn gerir til þeirra.

Bragðáhrifin benda til gæðavandamála í framleiðslu vörunnar og því bendum við fólki sem finnur fyrir þeim að hafa samband beint við þann aðilla sem varan er keypt hjá eða innflytjanda furuhnetanna. Þeir geta þá sett í gang nauðsynlegar athuganir eða mælingar til að tryggja að furuhneturnar séu örugg matvæli og uppfylli gæðastaðla framleiðandans. 


Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?