Fara í efni

Fundargerðir fagráðs um velferð dýra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fundgerðir fagráðs um velferð dýra eru birtar á vefsíðu Matvælastofnunar, sjá slóð. Á fundi fagráðsins 25. janúar s.l. fjallaði ráðið um tvö málefni sem snerta starfsemi stofnunarinnar og bókaði fagráðið ályktanir því tengdu. Af þessu tilefni vill Matvælastofnun upplýsa nánar um málefnin.

Önnur bókunin varðar lausagöngu sauðfjár við þjóðvegi landsins. Í dag eru skýr ákvæði um ábyrgðarsvið varðandi vegi og lausagöngu búfjár, en engu að síður getur lausaganga valdið hættu fyrir sauðféð og ökumenn. Matvælastofnun hefur undanfarin ár vakið athygli á þessu við ábyrgðaraðila þessa málefnis, en lítið hefur þokast til úrbóta. Stofnunin mun leita liðsinnis hjá matvælaráðuneytinu til að skoða aðkomu og samráð þeirra aðila er eiga valdsvið og ábyrgð tengt málaflokknum til að finna mögulegar leiðir til að lágmarka áhættuna á slysum af völdum lausagöngu sauðfjár við þjóðvegi.

Hin bókunin varðar viðbrögð og málsmeðferð Matvælastofnunar við ábendingum um illa meðferð dýra, eins að verklag stofnunarinnar sé ógegnsætt og óaðgengilegt. Matvælastofnun áréttar að stofnunin hefur um árabil haft gæðahandbók stofnunarinnar aðgengilega á vefsíðu sinni þar sem má finna nákvæmt verklag stofnunarinnar á hvernig unnið er að öllum málum. Þar eru til að mynda sérstök gæðaskjöl sem fjalla um eftirlit og málsmeðferð dýravelferðarmála en af forsíðu þarf tvo smelli til að opna efnisyfirlit gæðahandbókar. Í allri málsmeðferð dýravelferðarmála ber að vinna samkvæmt stjórnsýslulögum, framlenging fresta er ætíð matsatriði þar sem huga þarf að ákvæðum laga um velferð dýra og þeim reglum sem tryggja eiga réttarvernd borgara skv. stjórnsýslulögum. Tvö dómsmál bíða úrvinnslu Landsréttar, bæði snúa þau að meintu offari Matvælastofnunar við aðgerðir stofnunarinnar í alvarlegum dýravelferðarmálum. Þar er m.a. byggt á að meðalhófs hafi ekki verið gætt við ákvörðun Matvælastofnunar um vörslusviptingu og stofnunin hafi gengið of hart fram og ekki veitt nægjanlega fresti til úrbóta.

Víða í samfélaginu er ákall um að Matvælastofnun gangi harðar fram í málsmeðferð dýravelferðarmála. Í verklagsreglum stofnunarinnar kemur skýrt fram að hröð viðbrögð eru viðhöfð þegar dýravelferðarmál þola ekki bið, þá telst málshraði í dögum eða jafnvel klukkustundum, allt eftir umfangi. Gert er ráð fyrir lengri tíma í málsmeðferð þegar frávik og aðstæður þola bið og getur málshraði verið vikur, mánuðir og jafnvel misseri.

Fagráð um velferð dýra óskar sömuleiðis eftir því að stofnunin framkvæmi innri úttektir varðandi eftirlit með velferð dýra. Því vill stofnunin benda á að nú þegar er virkt innra úttektarkerfi sem framkvæmir innri úttektir hjá stofnuninni. Einnig er Matvælastofnun tekin út u.þ.b. 3-4 sinnum á ári af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) varðandi eftirlit og stjórnsýslu í mismunandi málaflokkum, og eru allar skýrslur birtar opinberlega. Eins stendur yfir stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á eftirliti með dýravelferð. Allar þessar úttektir skila úttektarskýrslum sem stofnunin bregst við með framsetningu úrbótaáætlana og innleiðingu úrbóta. Matvælastofnun telur rétt að bíða eftir úttekt Ríkisendurskoðun áður ákveðið verður frekar með endurskoðun verklags stofnunarinnar við málsmeðferð dýravelferðarmála.


Getum við bætt efni síðunnar?