Fuglainflúensa í máfi við Reykjavíkurtjörn
Máfur sem fannst í byrjun nóvember við Reykjavíkurtjörn greindist með skæða fuglainflúensu H5N5. Almenningur er beðinn um að tilkynna tafarlaust um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum til Matvælastofnunar. Varast ber að snerta hræ og handfjatla veika villta fugla. Allir sem halda alifugla eða aðra fugla eru hvattir til að viðhafa ýtrustu smitvarnir við umhirðu fuglanna.
Þann 1. nóvember fannst veikur máfur við Reykjavíkurtjörn. Hann var ófær um að forða sér og var því aflífaður af starfsfólki Reykjavíkurborgar og færður til Dýraþjónustu Reykjavíkur til sýnatöku. Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum staðfesti þann 14. nóvember 2024 að skæð fuglainflúensa H5N5 hafi greinst í sýni úr fuglinum. Þetta er fyrsta greining sjúkdómsins í villtum fugli á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári. Mikilvægt er að allir sem finna veikan eða dauðan villtan fugl tilkynni hann til Matvælastofnunar í gegnum ábendingarkerfi hennar eða til Dýraþjónustu Reykjavíkur, finnist fuglinn í Reykjavík. Æskilegt er að tilkynningunni fylgi mynd af fuglinum ásamt staðsetningu, gjarnan í formi hnita fundarstaðarins.
Fáar tilkynningar hafa borist í haust um fund á veikum eða dauðum villtum fuglum og má því álykta að sjúkdómurinn sé ekki að valda miklum afföllum um þessar mundir. En hafa þarf í huga að sumar þeirra fuglategunda sem smitið hefur greinst í eru staðfuglar og af þeim getur því áfram stafað smithætta fyrir alifugla og aðra fugla í haldi. Matvælastofnun og áhættumatshópur um fuglainflúensu meta miðlungs líkur á því að alvarlegt afbrigði fuglainflúensuveira berist í alifugla og aðra fugla í haldi og er óvissustig, sem virkjað var í síðasta mánuði, því enn í gildi.
Smithætta af skæðum fuglainflúensuveirum sem nú finnast í Evrópu, þar með talið á Íslandi, er metin lítil fyrir almenning en getur verið miðlungs fyrir einstaklinga sem eru í mikilli nálægð eða snertingu við fugla. Þrátt fyrir litla smithættu er almenningi ráðlagt að snerta ekki hræ og koma ekki nálægt eða handleika veikan villtan fugl, nema að viðhöfðum góðum sóttvörnum svo sem að nota einnota hanska og veiruhelda grímu. Ef fugl er augljóslega slasaður skal tilkynna um hann til viðkomandi sveitarfélags sem er skylt að bregðast við samkvæmt lögum um velferð dýra. Sveitarfélög eru ábyrg fyrir því að koma villtum dýrum í neyð til aðstoðar eða sjá til þess að þau séu aflífuð á mannúðlegan hátt.