Fara í efni

Frjóegg geta borið með sér sjúkdóma

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun varar við smithættu frá ólöglega innfluttum frjóeggjum. Með þeim geta borist sjúkdómar og smitefni í alifugla og önnur dýr.

Frjóegg fyrir alifuglarækt eru reglulega flutt til landsins með heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og að fenginni umsögn Matvælastofnunar sem felur m.a. í sér mat á sjúkdómastöðu viðkomandi útflutningslands. Ströng skilyrði fylgja þeim heimildum í þeim tilgangi að koma í veg fyrir eins og kostur er að dýrasjúkdómar berist til landsins. Innflutt frjóegg skulu koma frá búum sem lúta opinberu eftirliti og þeim skal fylgja opinbert heilbrigðisvottorð. Eggin skulu vera sótthreinsuð og flutt í nýjum hreinum umbúðum. Ef leyfi hefur verið veitt fara útungun og uppeldi svo fram í einangrunarstöð undir eftirliti Matvælastofnunar þar til búið er að ganga úr skugga um að ekki leynist sjúkdómar í innflutningshópi.

Sé rétt staðið að innflutningi frjóeggja er minni hætta á að sjúkdómar berist til landsins en með innflutningi lifandi alifugla. En þrátt fyrir smitvarnir geta alvarlegir sjúkdómar þó borist með frjóeggjum. Því eru tekin sýni úr ungunum sem klekjast áður en einangrun er aflétt. Með blóðsýnatöku úr fuglunum er skimað fyrir ýmsum sjúkdómum sem þekkjast ekki hérlendis. Einnig eru tekin sýni til að ganga úr skugga um að fuglarnir séu ekki smitaðir af Salmonellu. Að auki er vitað að sýklalyfjaónæmar bakteríur geta borist með frjóeggjum.

Alifuglabú sem framleiða matvæli lúta opinberu eftirliti með heilbrigði og velferð dýranna. Ætla má að auknar líkur séu á sjúkdómasmiti á meðal bakgarðshænsna þar sem meira er um flutninga fugla á milli eigenda án þess að sjúkdómastaða á upprunastað sé að fullu þekkt og smitvarnir ekki eins góðar.

Sjúkdómastaða í íslenskri alifuglarækt er með þeirri bestu sem þekkist í heiminum og það er takmörkun á innflutningi alifugla og ströngum innflutningsskilyrðum fyrir frjóegg að þakka. Það er skylda okkar allra að varðveita þessa góðu sjúkdómastöðu. 


Getum við bætt efni síðunnar?