Fara í efni

Framleiðsla kapla-, geita- og sauðamjólkur.

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 1. júní sl. tók gildi breyting á lögum um matvæli nr. 93/1995 sem gerði framleiðslu á ofangreindum mjólkurtegundum starfsleyfisskylda til jafns við kúamjólk.

Breytingin var gerð að ósk Matvælastofnunar og stafar af vaxandi áhuga hjá einstökum bændum á að vinna sauðamjólk, m.a. til ísgerðar.  Gildandi lög voru þannig að framleiðsla kúamjólkur var starfsleyfisskyld en ekki framleiðsla sauðamjólkur.  Byggðist það á því að sauðfjárrækt og hrossarækt er einungis tilkynningarskyld til Matvælastofnunar en þarfnast ekki sérstaks starfsleyfis, enda þau ákvæði ekki sett með mjólkurframleiðslu í huga.

Nú hefur lögunum verið breytt á þanni veg að framleiðsla á kapla-, geita- og sauðamjólk er einnig orðin starfsleyfisskyld og framleiðsla á henni þar af leiðandi óheimil nema starfsleyfi liggi fyrir.  Það gildir jafnt um allar tegundir mjólkur að hún er viðkvæm frá örverufræðilegu sjónarmiði og fellur jafnframt undir almenna reglugerð um mjólkurvörur nr. 851/2012.

Hér er því á ferðinni samræming reglna á sviði mjólkurframleiðslu sem er ætlað að tryggja matvælaöryggi.

Ekki er hins vegar krafist sérstaks starfsleyfis af bændum sem ætla einungis að stunda hefðbundna sauðfjár- og hrossarækt án mjólkurframleiðslu.  Þeim ber hins vegar eins og áður að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína áður en hún hefst.

Breytingalögin eru nr. 40/2016.


Getum við bætt efni síðunnar?