Fara í efni

Framleiðsla búfjárafurða tekur breytingum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Ný matvælalöggjöf um hollustuhætti og eftirlit á Evrópska efnahagssvæðinu tók gildi á Íslandi 1. mars 2010 fyrir fóður – og matvælafyrirtæki nema fyrirtæki sem vinna afurðir úr búfjárafurðum. Við það fluttist eftirlit með kjötvinnslum og mjólkurbúum til Matvælastofnunar frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Sá hluti löggjafarinnar sem snýr að búfjárafurðum verður innleiddur 1. nóvember n.k. Á sama tíma verður umdæmisskrifstofum Matvælastofnunar fækkað úr 14 í 6 og breytingar gerðar á opinberu eftirliti héraðsdýralækna og dýralæknaþjónustu til að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra með því að aðskilja opinbert eftirlit héraðsdýralækna frá almennri dýralæknaþjónustu. Markmið nýrrar löggjafar eru meðal annars að tryggja rekjanleika matvæla og fóðurs og að afurðir á markaði uppfylli sömu gæða- og heilnæmiskröfur óháð uppruna vörunnar.

    Á síðasta ári kynnti Matvælastofnun  fyrirhugaðar  breytingar fyrir fóður- og matvælaframleiðendum (fóðurfyrirtækjum, mjólkurstöðvum, sláturhúsum, kjötvinnslum, bændum). Haldnir voru fræðslufundir fyrir stjórnendur matvæla- og fóðurfyrirtækja og einnig var gefið út fræðsluefni um ýmis ný eða breytt ákvæði í löggjöfinni eins og um ábyrgð framleiðanda, samþykkisnúmer, auðkennismerki, rekjanleika og innra eftirlit.
Úttekt matvæla- og dýraheilbrigðisstofnunar Evrópu (FVO) í september 2010 á nokkrum mjólkurstöðvum, sláturhúsum og kjötvinnslum leiddi í ljós að  úrbóta væri þörf til að fyrirtækin uppfylltu kröfur löggjafarinnar. Haldinn var sérstakur fræðslufundur þar sem kröfur löggjafarinnar voru kynntar fyrir framleiðendum búfjárafurða, ásamt helstu niðurstöðum úttektar FVO. Aðgerðaráætlun um úrbætur var hrint af stað og eftirlitsheimsóknir í fyrirtæki nýttar til upplýsingamiðlunar.

Nú styttist í að búfjárafurðahluti löggjafarinnar taki gildi. Matvælastofnun vinnur því að því að meta og flokka fyrirtæki m.t.t. þeirra krafna sem gerðar eru til framleiðenda fóðurs- og dýraafurða til að þeir fái samþykkisnúmer og áframhaldandi starfsleyfi. Hafin er þjálfun eftirlitsmanna stofnunarinnar, með aðstoð erlendra sérfræðinga, til að gera úttekt á fyrirtækjunum  og leggja mat á hvort þau uppfylli ákvæði löggjafarinnar. Fyrirhuguð eru málþing í september fyrir framleiðendur fóðurs og dýraafurða um  úttekt á fyrirtækjunum og þær kröfur sem gerðar eru til þeirra. Þegar úttektum á fyrirtækjum og flokkun þeirra verður lokið verða sömu aðilar boðaðir á annað málþing um niðurstöðurnar. Á þeim tímapunkti mun verða hægt að benda á þær breytingar sem þarf að framkvæma í hverju fyrirtæki fyrir sig og útbúa áætlun um úrbætur.

Nánari upplýsingar um nýja löggjöf um búfjárafurðir má finna hér að neðan. Unnið er áfram að innleiðingu reglna sem taka gildi 1. nóvember og verða þær kynntar framleiðendum fóðurs- og dýraafurða í ofangreindu fræðslustarfi.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?