Fara í efni

Fræðslufundur: Úttekt á sláturhúsum, kjötvinnslum og mjólkurbúum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Matvælastofnun heldur fræðslufund um úttekt á framleiðslu búfjárafurða þriðjudaginn 27. september  2011 kl. 15:00 - 16:00. Á fundinum verður fjallað um nýja löggjöf um framleiðslu búfjárafurða, helstu vandamál í sláturhúsum, kjötvinnslum og á mjólkurbúum og fyrirhugaða úttekt Matvælastofnunar á fyrirtækjum sem framleiða búfjárafurðir.

Ný matvælalöggjöf um hollustuhætti og eftirlit á Evrópska efnahagssvæðinu tók gildi á Íslandi 1. mars 2010 fyrir fóður– og matvælafyrirtæki nema fyrirtæki sem vinna afurðir úr búfjárafurðum. Við það fluttist eftirlit með kjötvinnslum og mjólkurbúum til Matvælastofnunar frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Sá hluti löggjafarinnar sem snýr að búfjárafurðum verður innleiddur 1. nóvember n.k. Markmið nýrrar löggjafar eru meðal annars að tryggja rekjanleika matvæla og fóðurs og að afurðir á markaði uppfylli sömu gæða- og heilnæmiskröfur óháð uppruna vörunnar.

Í haust mun Matvælastofnun framkvæma úttekt á fyrirtækjum sem framleiða búfjárafurðir. Markmið fræðslufundar er að fylgja eftir kynningarfundum stofnuninnar um löggjöfina og kröfur hennar sem haldnir voru á síðasta ári og kynna fyrirhugaða úttekt fyrir eftirlitsþegum. Fundurinn mun hefjast með upprifjun á löggjöfinni og fjalla um helstu vandamál sem komið hafa í ljós við eftirlitsheimsóknir Matvælastofnunar og evrópskra eftirlitsstofnanna (FVO og ESA). Þá verður farið yfir það ferli sem hefst með úttektum í fyrirtækjunum þar sem skoðað verður hvort þau uppfylli kröfur löggjafarinnar og endar með úthlutun samþykkisnúmeris sem er staðfesting á að kröfur löggjafarinnar séu uppfylltar.  Fyrirtæki geta undirbúið sig fyrir þessar úttektir með því að kynna sér vel kröfur reglugerðanna og annað efni sem Matvælastofnun hefur gefið út. 

Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa - Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.

Fyrirlesarar:

    Viktor S. Pálsson, forstöðumaður hjá Matvælastofun
    Gunnar Örn Guðmundsson, héraðsdýralæknir hjá Matvælastofnun
    Dóra S. Gunnarsdóttir, fagsviðsstjóri hjá Matvælastofnun

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu Matvælastofnunar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði stofnunarinnar að norðanverðu (Grafarvogsmegin) og allir velkomnir!

Ananr og lengri kynningarfundur um matvælalöggjöfina verður haldinn 25. október í Reykjavík og 26. október á Akureyri. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?