Fræðslufundur: Nýjar kröfur um framleiðslu dýraafurða
Frétt -
21.09.2010
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Með innleiðingu nýrrar
matvælalöggjafar verða gerðar breytingar á lögum um framleiðslu
búfjárafurða. Sá hluti löggjafarinnar tekur gildi 1. nóvember 2011 og
þurfa allar mjólkurstöðvar, kjötvinnslur og sláturhús að hefja
undirbúning til að uppfylla þessar nýju reglur frá og með þeim degi.
Matvælastofnun heldur fræðslufund um nýjar kröfur um framleiðslu
dýraafurða þriðjudaginn 28. september kl. 15-16.
Á fundinum verður ný löggjöf um framleiðslu búfjárafurða kynnt og farið yfir þær kröfur sem gerðar eru til framleiðslu dýraafurða. Fjallað verður um áherslur í opinberu eftirliti og eftirfylgni til að tryggja að kröfurnar séu uppfylltar. Jafnframt verða kynntar athugasemdir frá nýafstaðinni heimsókn fulltrúa Evrópusambandsins um matvælaöryggis- og dýraheilbrigðismál (FVO) á Íslandi þar sem gerð var úttekt á starfsemi sláturhúsa og mjólkurstöðva og eftirliti með þeim.
Fyrirlesarar:
Viktor S. Pálsson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs MAST
Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður matvælaöryggis- og neytendamálasviðs MAST
Kjartan Hreinsson, sérgreinadýralæknir heilbrigðiseftirlits hjá MAST
Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu og nálgast upptöku af fundinum á vef MAST undir ÚTGÁFA - FRÆÐSLUFUNDIR.
Allir velkomnir!