Fræðslufundur: Fullyrðingar á matvælum
Matvælastofnun heldur fræðslufund um heilsu- og næringarfullyrðingar á matvælum þriðjudaginn 23. mars kl. 15:00 - 16:00. Á fundinum verður fjallað um breytingar á reglum um notkun fullyrðinga sem verða með innleiðingu á nýrri reglugerð ESB og þau skilyrði sem munu gilda um notkun fullyrðinga, ásamt dæmum um bannaðar fullyrðingar.
Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu og nálgast upptöku af fundinum á vef MAST undir ÚTGÁFA - FRÆÐSLUFUNDIR.
Reglugerð Evrópusambandsins um fullyrðingar nr. 1924/2006 verður brátt innleidd á Íslandi og á sama tíma fellur úr gildi IV. kafli reglugerðar nr. 588/1993 um merkingu, auglýsingu og kynningu matvæla. Markmið reglugerðarinnar er m.a. að að tryggja frjálst flæði vöru innan Evrópusambandsins með samræmdum reglum um fullyrðingar matvæla á öllu svæðinu. Með nýju reglugerðinni verður aðeins heimilt að nota þær næringarfullyrðingar sem eru í viðauka við reglugerðina og aðeins þær heilsufullyrðingar sem verða á lista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins yfir leyfðar heilsufullyrðingar. Á fundinum verður m.a. farið yfir gildissvið, skilyrði fyrir notkun fullyrðinga og umsókn um notkun nýrra heilsufullyrðinga. Einnig verður fjallað um fullyrðingalista Evrópusambandsins og framkvæmd reglugerðarinnar í Evrópusambandinu.
Fyrirlesarar:
Helga M. Pálsdóttir, sérfræðingur hjá Matvælastofnun
Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!