Fara í efni

Fræðslufundur: Breytingar með nýrri matvælalöggjöf

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun heldur opinn fræðslufund um breytingar með nýrri matvælalöggjöf þriðjudaginn 26. janúar kl. 15:00 - 16:00. Á fundinum verður fjallað um þær breytingar sem innleiðing matvælalöggjafar ESB hefur í för með sér og áhrif þeirra á neytendur, framleiðendur, innflytjendur og eftirlitsaðila.

Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa - Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.

Með samþykki matvælafrumvarpsins á Alþingi 18. desember s.l. verður matvælalöggjöf ESB innleidd í áföngum og munu breytingar á lögum um matvæli, fóður og sjávarafurðir taka gildi 1. mars n.k. Með breytingunum er gerð aukin krafa um góða framleiðsluhætti, ábyrgð matvælafyrirtækja á eigin framleiðslu, öflugt innra eftirlit og rekjanleika, sem stuðlar að matvælaöryggi og neytendavernd. Samhliða taka breytingar á fyrirkomulagi matvælaeftirlits gildi og mun Matvælastofnun (MAST) taka yfir eftirlit með eggjavinnslum, mjólkurstöðvum og kjötvinnslum (nema í smásölu, s.s. kjötvinnslur í stórmörkuðum) sem áður var i höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. 

Árið 2011 falla eftirlitssamningar skoðunarstofa við vinnslu- og starfsleyfishafa í sjávarútvegi úr gildi og færist eftirlitið yfir til MAST eða faggilts eftirlitsaðila í umboði MAST. Loks taka breytingar á löggjöf um búfjárafurðir gildi 1. nóvember 2011 og frá sama tíma verður umdæmisskrifstofum MAST fækkað úr 14 í 6, með einum héraðsdýralækni starfandi í opinberu eftirliti í hverju umdæmi, ásamt eftirlitsdýralæknum og öðrum eftirlitsmönnum.

Fyrirlesarar:

      Viktor S. Pálsson, forstöðumaður stjórnsýslusviðs MAST
      Jón Gíslason, forstjóri MAST

Fræðslufundurinn verður haldinn í umdæmisskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík að Stórhöfða 23. Gengið er inn í húsnæði MAST að norðanverðu (Grafarvogsmegin). Allir velkomnir!

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?