Fara í efni

Fræðsla um velferð alifugla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Dagana 7. til 9. september stóð Matvælastofnun fyrir námskeiði um velferð alifugla. Til þess var fenginn til landsins sænskur dýralæknir, Lotta Berg, með mikla sérþekkingu á sviði velferðar alifugla. Á námskeiðinu var farið yfir lykilþætti við ræktun, flutning, föngun, deyfingu og aflífun alifugla sem huga þarf að í alifuglarækt til að bæta velferð dýranna og starfa í samræmi við lög og reglur.

Lotta Berg er dýralæknir með sérþekkingu í dýravelferð. Í doktorsverkefni sínu þróaði hún kerfi til að meta á samræmdan hátt dritbruna á fótum kjúklinga og er kerfi hennar notað víða í Evrópu. Í dag starfar hún sem prófessor í dýravelferð við sænska landbúnaðarháskólann (SLU) í Skara. Hún hefur setið sem sérfræðingur í dýravelferð í mörgum alþjóðlegum vinnuhópum, þá sérstaklega í vinnuhópum um velferð dýra við aflífun.

Greining, orsök og fyrirbyggjandi aðgerðir vegna dritbruna á fótum kjúklinga var til umfjöllunar á námskeiðinu. Fengnar voru yfir 200 kjúklingafætur úr sláturhúsum til að æfa þáttakendur í að greina og flokka dritbruna eftir alvarleika. Æfingin var mjög gagnleg þar sem dýralæknar Matvælastofnunar flokka kjúklingahópa eftir dritbruna daglega við slátrun og getur niðurstaða flokkunar haft áhrif á leyfilegan þéttleika í viðkomandi kjúklingahúsi.

Flokkun dritbruna í alifuglum
Þátttakendur greina og flokka dritbruna eftir alvarleika

Lotta fór yfir reynslu Svía af breytingu á varphænsnahaldi úr hefðbundnum búrum yfir í svokölluð velferðarbúr og lausagönguhús. Hún fræddi okkur um hvernig föngun kjúklinga fyrir slátrun og varphænsna sem eru komnar að lokum varptímabilsins er best framkvæmd. Föngun varphænsna í lausagönguhúsum á mörgum hæðum er m.a. mun flóknari en ef hænurnar eru í búrum. Hún ítrekaði einnig mikilvægi þess að bæði fuglaeigendur, sláturhús og Matvælastofnun séu með viðbragðsáætlanir fyrir umferðarslys með flutningabílum alifugla og fyrir náttúruvá. 

Aflífunaraðferðir voru kynntar á námskeiðinu og skerpt var á réttu verklagi við aflífun, bæði á býli og í sláturhúsum. Farið var yfir möguleika við aflífun einstakra dýra, aflífun stærri hópa, og kosti þeirra og galla. Samkvæmt Evrópureglugerð, sem einnig gildir á Íslandi, er leyfilegt að nota rafmagn, koltvísýring, kolsýring eða höfuðhögg til að rota/deyfa fyrir aflífun alifugla. Einnig má aflífa ódeyfða einstaka fugla upp að vissri líkamsþyngd með því að snúa þá úr hálslið. Í Svíþjóð er gengið skrefinu lengra, en þar er ekki lengur heimilað að snúa fugla úr hálslið nema þeir séu orðnir meðvitundarlausir, þar sem sýnt hefur verið fram á að það er sársaukafullt fyrir fugl að vera snúinn úr hálslið. Útskýrt var af hverju afhausun, án undangenginnar deyfingar og meðvitundarleysis, sé alveg bönnuð skv. Evrópureglugerðinni, þar sem of langur tími líður frá afhausun þar til dýrið missir meðvitund.

Á lokadegi námskeiðsins var svo farið í kjúklingasláturhús til að fylgjast með ferlinu frá því dýrin koma í hús, rotun með rafmagni og aflífun. Námskeiðið var vel sótt af alifuglaræktendum, ábyrgðaraðilum sláturhúsa og eftirlitsdýralæknum, sem hafði fyrirfram verið gefinn kostur á að óska eftir sérstökum umræðuefnum á námskeiðinu og fá svar við spurningum sínum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?