Fara í efni

Forðumst fuglaflensu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
 

Í mörgum löndum Asíu geisar nú fuglaflensa, þar sem fuglar og alifuglar drepast og er eytt í stórum stíl.


Í augnablikinu eru staðfest tilfelli í Norður Kóreu, Víetnam, Tælandi, Kína, Indónesíu, Pakistan, Kambódíu, Laos og Taiwan, þar sem margar milljónir fugla eru annað hvort dauðar eða hefur verið fargað sem lið í baráttunni við sjúkdóminn. Ekki eru í gildi neinar takmarkanir á ferðum fólks til þessara landa vegna sjúkdómsins.


Fuglaflensa er ekki hættuleg fólki við venjulegar aðstæður. Veiran sem veldur sjúkdómnum skilst út í miklu magni gegnum saur smitaðra fugla, þess vegna er ferðamönnum ráðlagt að forðast beina snertingu við lifandi fugla, t.d. á mörkuðum þar sem lifandi fiðurfénaður er seldur. Veiran þolir ekki suðu þannig að hættulaust á að vera að borða soðnar alifuglaafurðir. Sjóða ber allar fuglaafurðir vandlega. Sama gildir um egg. Til að draga úr smithættu er hreinlæti mikilvægt t.d. að þvo hendur vel og vandlega. Þvoið hendur vel upp úr heitu vatni og sápu eða með efnum sem innihalda spritt.


Til að forðast það að smit berist til Íslands hvertur embætti yfirdýralæknis til að fólk fylgi eftirfarandi leiðbeiningum:


1. Hafi ferðamaður komist í nána snertingu við lifandi fiðurfénað á ferðalögum sínum, skal hann forðast að koma í beina eða óbeina snertingu við fugla og fiðurfénað hér á landi í a.m.k. 48 tíma eftir heimkomuna til Íslands.

2. Við heimsóknir á staði þar sem eru lifandi fuglar ber að nota einnota hlífðarfatnað sem síðan er skilinn eftir á staðnum. Ef notaður er skó- og hlífðarfatnaður sem hægt er að þrífa ber að gera það vandlega á staðnum.

3. Þrífa ber og sótthreinsa allt sem komið hefur í beina snertingu við fiðurfénað og egg, ef ætlunin er að taka það með til Íslands.

4. Bannað er að taka með sér lifandi fiðurfénað og hráar afurðir fugla frá ofangreindum löndum.

5. Tollayfirvöld eru sérstaklega á varðbergi gagnvart afurðum frá þessum löndum.


Birt á vef Yfirdýralæknis þann 6. apríl, 2005.Getum við bætt efni síðunnar?