Fara í efni

Forsendur fyrir áframhaldandi undirbúningi landsmóts

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 

Nú þegar smitandi hósti hefur herjað á hrossastofninn í vel á þriðja mánuð hafa safnast umtalsverðar faraldsfræðilegar upplýsingar um útbreiðslu sjúkdómsins og sjúkdómsferilinn auk upplýsinga um áhrif hans á heilsu hrossa til lengri og skemmri tíma. Út frá þeim má ráða ýmislegt um orsakir sjúkdómsins og hvernig faraldurinn muni þróast.


  Í grunninn er um að ræða væga veirusýkingu sem leggst á efri hluta öndunarvegar, kok og nefhol. Við bestu aðstæður gengur sýkingin yfir á tveim vikum og einkennin eru glært nefrennsli og vægur hósti. Alvarlegri áhrif sýkingarinnar eru að hún gerir hrossin berskjölduð gagnvart öðrum sýkingum sem koma í kjölfarið. Einkum eru það bakteríusýkingar, s.k. streptokokkar (Streptococcus zooepidemicus) sem hafa náð að slá til og ráða miklu um sjúkdómsferilinn. Streptokokkar hafa ræktast úr svo gott sem öllum hestum sem hósta og öllum þeim sem eru með graftarkenndan hor en ekki úr þeim sem aðeins eru með glært hor og ekki úr einkennalausum hrossum (Eggert Gunnarsson og Vilhjálmur Svansson 18.maí). Umhverfisaðstæður hafa mjög mikið að segja um hversu miklar og þrálatar kjölfarssýkingarnar verða.

Meðfylgjandi mynd sýnir sjúkdómsferilinn eins og hann hefur birst í nokkrum hesthúsum þar sem upplýsingum hefur verið safnað skipulega.



Fullvíst er talið að smitið hafi verið komið á kreik í febrúar og kannski fyrr. Fyrstu tilkynningarnar um hópsmit, sem benti til þess að faraldur væri að breiðast út, bárust viku af apríl. Þá þegar voru 15 - 20 tamningastöðvar staddar í þriðju viku þess sjúkdómsferils sem sýndur er á meðfylgjandi mynd og fleiri á leiðinni. Smitið breiddist hratt út en þar sem meðgöngutíminn er langur og við hann bætist sá tími sem kjölfarssýkingar eru að magnast upp, geta liðið allt að 4-5 vikur frá smiti þar til veikindin koma upp á yfirborðið. Í byrjun maí voru sjúkdómseinkennin orðin greinileg í hesthúsum víða um land og veikin í algleymingi. Þau hross eru nú um Hvítasunnuna í 5.- 6. viku og enn ber mikið á veikindum, einkum þar sem kjölfarssýkingar hafa náð sér á strik. Út frá reynslunni er þess að vænta að mikill meirihluti þeirra verði búinn að ná heilsu viku af júní.

Lærum af reynslunni

Það er afar miklvægt að fyrirbyggja kjölfarssýkingarnar eins og frekast er unnt. Þær virðast magnast hratt upp í hesthúsum og því er áríðandi að hafa hrossin eins mikið úti og í eins hreinu umhverfi  og hægt er. Óhætt er að sleppa hrossum sem ekki eru á leið í nein sérstök verkefni og draga þannig úr þéttleika og smitálagi í húsum. Til að draga frekar úr smiti þarf að hreinsa hesthúsin vel, tæma safnstíur og helst háþrýstiþvo. Ástæða getur verið til að úða þá fleti sem mest mæðir á með sótthreinsiefninu Virkoni þar á eftir.

Ef kjölfarssýkingar hafa náð sér á strik  og einhver af aftirfarandi einkennum eru áberandi: hiti, mikill hósti, slappleiki og grænn hor, er eigendum bent á að leita til dýralækna um frekri ráðleggingar.

Nauðsynlegt er að hvíla hestana um leið og vart verður við fyrstu einkenni sjúkdómsins. Það er hins vegar gott að þeir hreyfi sig á eigin forsendum úti og ef einkennin eru væg er óhætt að teyma þá aðeins en ekki svita. Þegar hestar eru orðnir einkennalausir og frísklegir að sjá er óhætt að prófa þá í rólegheitum. Ef knapar verða varir við slappleika eða hósta (umfram smá hreinsanir) verða menn að hvíla hestana lengur, annars getur þjálfun hafist að nýju.

Þau góðu tíðindi berast nú frá mörgum tamningamönnum sem eru farnir að prófa hesta sína eftir veikindin að þeir eru alla jafna fljótir að jafna sig.

Þeir hestar sem fyrst tóku veikina fóru eðlilega verr út úr henni en ástæða er til að ætla að verði hjá þeim sem sýkjast núna. Þá var ekki veður til að hafa hestana mikið úti né vitað hversu mikilvægt og nauðsynlegt það er til að draga úr kjölfarssýkingum. Sömuleiðis voru margir hestanna í fullri notkun þrátt fyrir að fyrstu einkenni væru komin fram enda eru þau lúmsk og sjúkdómurinn þá með öllu óþekktur. Sum þessara hrossa hafa verið nokkuð lengi að jafna sig að en öll ætla þau að ná fullri heilsu og eru raunar mörg komin í hörku form.

Með þeirri vitneskju sem nú liggur fyrir og að framundan er betri tíð með blóm í haga, má reikna með að hægt verði að koma í veg fyrir kjölfarssýkingarnar að miklu leyti. Sjúkdómsferillinn sem sýndur er með bláum lit á myndinni verður þá ríkjandi. Það gefur jafnvel þeim sem eiga hross sem hafa veikst fremur seint góðar vonir um að geta tekið þátt í keppnum og sýningum í aðdraganda Landsmóts.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?