Fara í efni

Flugan er kamfýlóbakter smitberi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þessa dagana er verið að klæða nokkur kjúklingahús með flugnanetum í tilraunaskyni.
“Flugnanets-tilraunin” er samstarfsverkefni Íslendinga og Kanadamanna sem leggja til efni og búnað en kjúklingafyrirtækin Reykjagarður og Matfugl leggja til mannskap við uppsetningu og vöktun. Matvælastofnun safnar rannsóknarniðurstöðum og vinnur úr þeim. Þessi tilraun er liður í samstarfi kjúklingaframleiðenda og Matvælastofnunar við að bæta matvælaöryggi og vera áfram í fararbroddi í heiminum hvað varðar aðgerðir til að draga úr kamfílóbaktersmiti í fólki.

Íslenskar reglur eru þannig að sérhver kjúklingahópur er rannsakaður, ef hópur er kamfýlóbakter smitaður verður að frysta eða hitameðhöndla kjúklinginn áður en hann fer á markað. Þessi regla hefur skilað öruggari kjúklingum fyrir neytendur, en að sama skapi er hún erfið fyrir framleiðendur yfir sumartímann þegar mest er um kamfýlóbaktersmit og því vilja þeir leita allra leiða til að fyrirbyggja að fuglarnir smitist. Mjög mikið hefur áunnist með hefðbundnum smitvörnum á kjúklingabúunum en menn vilja gera enn betur og losna alveg við smit ef það er mögulegt.

Nýjar danskar rannsóknir hafa sýnt að flugan er sá smitberi sem við eigum eftir að ná tökum á. Ef fuglahús eru gerð fluguheld er raunhæfur möguleiki á að koma í veg fyrir að kamfýlóbakter berist inn í fuglahúsin, að því gefnu að hefðbundnar smitvarnir séu 100% virkar.Framleiðandi flugnanetanna er danska fyrirtækið Vestergaard Frandsen
Myndina tók Kanadamaðurinn Ruff Lowman


Getum við bætt efni síðunnar?