Fara í efni

Fimmta hver merking ófullnægjandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vorið 2010 ákvað Norræna Ráðherranefndin að setja af stað sameiginlegt eftirlitsverkefni á Norðurlöndunum um ofnæmismerkingar á matvælum meðal matvælafyrirtækja. Matvælastofnanir og heilbrigðiseftirlit frá Noregi, Svíþjóð, Danmörk og Finnlandi tóku þátt í verkefninu á tímabilinu 2010 til 2012. Helsta ástæða þess að verkefninu var hrundið af stað er mikilvægi þess að vörur séu rétt merktar með tilliti til þekktra ofnæmis- og óþolsvalda. Önnur ástæðan var sú að aukning virðist vera á því að vörur séu merktar með viðvörunarsetningunni „gæti innihaldið leifar af [ofnæmisvaldur]“ Viðvörunarsetningu sem þessa mega matvælaframleiðendur nota valfrjáls en í slíkum tilvikum er umræddur ofnæmisvaldur ekki í uppskrift matvörunar og því ekki nefndur í innihaldslýsingunni. Ekki eru til neinar reglur um í hvaða tilvikum megi nota svona viðvörunarsetningar. Þess utan geta viðvörunarsetningar takmarkað val á matvörum fyrir þá sem þjást af fæðuofnæmi þar sem verið er að gefa í skyn að varan gæti verið smituð á einhvern hátt af ofnæmisvaldi.

Innan Evrópska Efnahagssvæðisins gilda meðal annars reglur um að merkja skuli með skýrum hætti 14 tegundir hráefnis sem eru þekktir ofnæmis- eða óþolsvaldar ef þeir eru til staðar í matvælum, sjá upplýsingasíðu Matvælastofnunar um merkingar á ofnæmis- og óþolsvöldum. Dæmi um slíkt hráefni er mjólk, sojabaunir, jarðhnetur, fiskur og egg.

Eftirtalin matvæli (1095 vörur) voru metin hjá 464 matvælafyrirtækjum: tilbúnir réttir (s.s. pakkasósur, kjötsósur og pottréttir), morgunkorn, brauð, kökur, kex,  kökuduft, sælgæti, snakk og eftirréttir (s.s. ís, búðinga og hlaup). Vörur með eða án viðvörunartexta voru skoðaðar hjá framleiðendum og innflytjendum. Skoðunin leiddi í ljós að merkingar á 219 vörum (20%) voru ófullnægjandi (dæmi: innihaldslýsing ekki til staðar eða ofnæmisvaldur ekki skýrt merktur). Alvarlegasta brotið á reglugerðinni um merkingar sem uppgötvaðist var þegar innihaldslýsing matvöru stemmdi ekki við uppskrift hennar en slík vanmerking kom fyrir hjá 9% varanna. 

Aðvörunarsetningar voru notaðar fyrir 400 vörur (37%) og var algengasta setningin: „Getur innihaldið leifar af [ofnæmisvaldur]“. Aðrar algengar setningar voru: „Framleitt í sömu vörulínu og vörur með [ofnæmisvaldur]“ og „Framleitt í sömu byggingu og vörur með [ofnæmisvaldur]“.

Þó að Ísland hafi ekki verið þátttakandi í þessu verkefni þá er ýmislegt sem bendir til þess að hér á landi þurfi matvælafyrirtæki að huga betur að þessum þáttum. Fjöldi innkallana hefur átt sér stað hér á landi á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga vegna vanmerktra ofnæmis- og óþolsvalda eins og sjá má á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um innkallanir. Samkvæmt eftirlitsverkefni sem framkvæmt var árið 2011 um innihaldslýsingar matvæla og uppskriftir þeirra fundust vísbendingar um að verklag væri ófullnægjandi hjá fjórðungi fyrirtækja, sem voru til skoðunar, til að tryggja réttar merkingar á umbúðum matvara. Það er því full ástæða til að vekja athygli á því meðal íslenskra matvælafyrirtækja að fara vel yfir verkferla sína til að tryggja öryggi neytenda. Mikilvægt er að aðskilja vel hráefni sem geta valdið ofnæmi og óþoli frá öðrum hráefnum, passa þrifin, nota aðskilin áhöld/tæki þar sem það er hægt og tryggja réttar merkingar. Einnig er mikilvægt að tryggja vel aðskilnað ofnæmisvalda sem geta valdið lífshættulegu ástandi s.s. jarðhneta í matvælafyrirtækjum þar sem töluverð hætta er á krossmengun/smiti t.d. þar sem mismunandi hráefni og matvörur eru höfð nálægt hvort öðru án umbúða. Þetta á við um til dæmis veitingahús, bakarí, ísbúðir, kaffihús og fiskbúðir.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?