Evrópuskýrsla um leifar varnarefna í matvælum
Frétt -
29.07.2009
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) birti í júlí fyrstu árlegu skýrslu sína um varnarefnaleifar í matvælum. Skýrslan gefur yfirlit yfir þær leifar af varnarefnum, það eru leifar af plöntulyfjum (skordýraeitur og sveppalyf), illgresiseyðum og stýriefnum, sem fundust í matvælum árið 2007 og metur hugsanleg áhrif þeirra á heilsu neytenda.
Í skýrslunni eru teknar saman niðurstöður eftirlits með varnarefnaleifum í öllum 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins og tveimur EFTA ríkjum, þ.e. Noregi og Íslandi. Í allt voru 74.000 sýni greind af 350 ólíkum matvörum og í hverju sýni eru mælt fyrir leifum fjölmargra varnarefna. Af þessum sýnum voru 96% innan leyfilegra hámarksgilda varnarefna, en 4% höfðu leifar eins eða fleirri varnarefna yfir hámarksgildum.
|
Hámarksgildi
varnarefnaleifa er sett bæði til að verja neytendur og til að tryggja
örugga notkun efnanna með minnsta magni sem dugar til að ná tilætluðum
árangri. EFSA tekur fram að þó leifar finnist í matvælum og jafnvel
þegar leifar efnis greinast yfir hámarksgildum, þá þýðir það ekki
endilega að matvælin séu varasöm fyrir neytendur.
Þegar leifar greinast yfir hámarksgildum þarf að gera áhættumat og meta
hvort leifarnar í því magni sem greinst hefur feli í sér hugsanlega
hættu fyrir neytendur miðað við neyslumynstur á vörunni. |
Í lok skýrslunnar setur EFSA fram röð ráðlegginga fyrir eftirlitsáætlanir framtíðarinnar til að stuðla að því að opinberir eftirlitsaðilar fái nákvæmari niðurstöður og geti gert nákvæmara áhættumat vegna neytendaverndar.
Ítarefni