Fara í efni

ESA birtir landsskýrslu og úrbótayfirlit fyrir Ísland

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur nú uppfært svokallaða landsskýrslu um Ísland sem fyrst var birt árið 2014. Skýrslan er unnin í samráði við Matvælastofnun, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og aðrar hlutaðeigandi stofnanir í landinu sem sinna eftirliti með matvælum, fóðri og dýraheilsu.

Í skýrslunni er yfirlit yfir þau opinberu eftirlitskerfi á Íslandi sem tryggja eiga öryggi matvæla og fóðurs, dýraheilbrigði og dýravelferð. Skýrslan er nú birt í tveimur hlutum, annars vegar er um að ræða almenna umfjöllun um eftirlit með ofangreindum þáttum á Íslandi auk nánari lýsinga á hverjum þætti fyrir sig og hins vegar er yfirlit um stöðu úrbótatilmæla og viðbrögð íslenskra yfirvalda við úrbótakröfum sem gerðar hafa verið í kjölfar 20 úttekta ESA frá árinu 2010.

Ísland hefur uppfyllt meirihluta þeirra úrbótatilmæla sem fram hafa komið. Frá árinu 2010 hafa alls verið sett fram 212 tilmæli en eftir standa eingöngu 22 atriði til úrbóta sem flest tengjast nýlegum úttektum og úrbótafrestur því jafnvel ekki liðinn.

Landsskýrslan byggir fyrst og fremst á upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum um skipulag og virkni opinberra eftirlitskerfa á Íslandi, hlutverki stofnana og samvinnu þeirra þar sem við á. Úrbótayfirlitið byggir á niðurstöðum eftirlitsferða ESA til Íslands undanfarin ár og einkum á útkomu sérstakrar eftirfylgni úttektar stofnunarinnar sem síðast var framkvæmd í september 2016.

ESA kemur reglulega í úttektir til Íslands til að ganga úr skugga um að opinbert eftirlit sé í samræmi við eftirlits- og hollustuháttalöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Eftir hverja úttekt er gefin út skýrsla þar sem bent er á hvar úrbóta er þörf og þess óskað að Ísland leggi fram tímasetta og skýra áætlun um úrbætur á þeim þáttum.

Eins og fram hefur komið hefur úrbótum verið lokið á fjölmörgum sviðum og fá þær merkinguna ´action taken´ sbr. meðfylgjandi úrbótayfirlit.

Sem dæmi um úrbótaverkefni sem Matvælastofnun hefur unnið að, má nefna skoðunarhandbækur, þróun skráðra verkferla í gæðahandbók, betrumbætur á gagnagrunni eftirlitsskýrslna, áhættu- og frammistöðuflokkun, þjálfun starfsmanna í eftirliti, útgáfu leiðbeininga og staðfestingu á innra úttektakerfi sem einnig hefur verið hrint í framkvæmd.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?