Fara í efni

Eru stangirnar þínar löglegar í keppni eða kynbótasýningu?

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Samræming á eftirliti með mélum í sýningum og keppni

Í reglugerð um velferð hrossa er skýrt kveðið á um bann við notkun méla með tunguboga og vogarafli í hvers kyns sýningum og keppni hér á landi. Á það við um WR mót sem önnur. Eftirfarandi skilgreiningu er að finna í reglugerðinni:

Mél með tunguboga og vogarafli: Öll mél með stöngum og/eða keðju þar sem munnstykkið er þannig gert að hæðarmunur frá neðri kanti á endastykki upp í neðri kant á efsta hluta (miðhluta) er meiri en 0,5 sm.

Verulega hefur dregið úr alvarlegum áverkum á kjálkabeini hjá sýninga- og keppnishrossum eftir að reglugerðin tók gildi. En betur má ef duga skal og mikilvægt er að tryggja sameiginlegan skilning á þessu ákvæði sem og eftirfylgni. 

Yfirdómari hvers móts ber ábyrgð á að reglum um beislisbúnað sé fylgt en eðlilegast er að sjálft eftirlitið sé hjá fótaskoðunarmönnum/sýningastjórum. Ekki er mögulegt að meta hvort beisli með vogarafli séu með tunguboga nema tekið sé út úr hestunum og stundum getur reynst nauðsynlegt að mæla hæðarmuninn á neðri kanti á endastykki upp í neðri kant miðhluta.

Nokkur hópur dómara og sýningastjóra, auk formanns járningamannafélagsins og dýralæknis hrossasjúkdóma, kom saman 13. mars s.l. til að bera saman bækur sínar og samræma fyrirkomulag eftirlitsins. Niðurstaða fundarins var að samræma eftirlitið með eftirfarandi hætti:

  • Á öllum sýningum og mótum, þar sem fótaskoðun er viðhöfð, skulu fótskoðunarmenn athuga hvort riðið hafi verið við löglegan beislisbúnað. Merkt skal við hluteigandi lið á fótaskoðunarblaði í Mótafeng. Knapar geta mætt fyrir keppni og gengið úr skugga um lögmæti méla en alla jafna fer skoðunin fram eftir keppni. Tekið skal út úr öllum hestum sem riðið var við mél með vogarafli og kannað hvort þau séu með tunguboga. Hæð tungubogans skal mæld ef þurfa þykir. Ef um ólöglegan búnað er að ræða eða vafi leikur á lögmæti búnaðarins skal yfirdómari kallaður til sem tekur loka ákvörðun.
  • Á Landsmótum gerir Matvælastofnun kröfu um ítarlegri skráningu á mélum og öðrum beislisbúnaði.
  • Á sýningum þar sem ekki er viðhöfð fótaskoðun má vænta skyndieftirlits Matvælastofnunar.

Dæmi um ólögleg mél og mælingar á þeim:

Ólögleg mél 1

Ólögleg mél 2

Endastykki mélanna skulu lögð á láréttan flöt og hæð að neðra borði miðstykkis mælt.

Athygli er vakin á að mél sem þessi eru með vogarafli og þar sem þau eru ennfremur
með tunguboga eru þau ólögleg í sýningum og keppni hér á landi.

Tíðni særinda í munni keppnishesta


Getum við bætt efni síðunnar?