Eru matvæli rétt merkt?
Danska matvælastofnunin
birti nýverið niðurstöður rannsóknar sem sýndi að stór hluti
matvælafyrirtækja þar í landi uppfyllir ekki reglur um merkingar og
notkun aukefna í matvælum. Á vegum Matvælastofnunar (MAST) er
undirbúningur hafinn að eftirlitsverkefni sem mun m.a. leiða í ljós
hvort og hversu vel íslensk fyrirtæki standast kröfur um merkingar
matvæla.
Niðurstöður dönsku rannsóknarinnar vekja upp spurningar um hvort ástandið sé svipað hér á landi. Ranglega merktar matvörur uppgötvast reglulega hérlendis. Sem dæmi áttu þrjár innkallanir sér stað í vikunni sem leið vegna merkinga: Grænmetisgrillbuff og kindakæfa voru innkölluð vegna skorts á merkingu þekktra ofnæmisvalda í innihaldslýsingu og engiferdrykkur var innkallaður vegna ólöglegrar notkunar heilsufullyrðinga. Allar vörurnar voru framleiddar og merktar af íslenskum matvælafyrirtækjum.
Skýrar og réttar merkingar eru mikilvægar til að neytendur geti valið milli matvæla eftir sínum þörfum og þannig stuðla þær að bættri heilsu þjóðarinnar. Ranglega merktar matvörur geta hins vegar skapað lífshættulegt ástand hjá fólki með fæðuofnæmi.
Misjafnt er hversu vel neytendum gengur að skilja upplýsingar í merkingum og hversu duglegir þeir eru að nýta sér þær. Þar liggja ýmsar ástæður að baki. Meðal þeirra er óskýrt eða smátt letur, illa framsettar upplýsingar eða að fjöldi tungumála eða annarra merkinga gerir það erfitt að finna nauðsynlegar upplýsingar á umbúðum. Þetta eru atriði sem matvælafyrirtæki þurfa að hafa í huga.
Líta má á reglur um merkingar sem ákveðnar leikreglur sem matvælafyrirtæki verða að fara eftir. Reglurnar eru vissulega umfangsmiklar og stundum flóknar, en um leið er mjög brýnt að matvælafyrirtæki kynni sér þær vel og fari eftir þeim. Neytendur eiga að fá réttar og skýrar upplýsingar í merkingum og auglýsingum til að geta tekið upplýsta ákvörðun þegar þeir velja í matinn. Þeir eru ekki lengur að vinna matinn frá grunni heima eins og gert var áður fyrr, heldur treysta matvælafyrirtækjum til að framleiða fyrir sig tilbúnar máltíðir, samlokur, álegg og fleira. Þess vegna verða upplýsingar um innihald að vera skýrar.
Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga munu í janúar hefja eftirlitsverkefni til að kanna innihaldslýsingar matvæla og meta ástand merkinga hér á landi. Einnig verður farið í eftirlitsverkefni þar sem skoðaðar verða næringarfullyrðingar og heilsufullyrðingar í merkingum, kynningum og auglýsingum.
Ítarefni