Fara í efni

Engin riða í Skjálfandahólfi í 20 ár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 31. desember, 2019 mun varnarhólfið Skjálfandahólf ekki lengur vera skilgreint sem sýkt svæði með tilliti til riðu. Þetta er mikilvægur áfangasigur í baráttunni gegn riðuveiki í sauðfé. Enn eru þó sjö af 25 hólfum á landinu skilgreind sem sýkt og ekki sér fyrir endann á baráttunni við sjúkdóminn. 

Matvælastofnun ítrekar því mikilvægi þess að allir sauðfjáreigendur séu vakandi og hafi samband við héraðsdýralækni án tafar, verði þeir varir við einkenni sem gætu bent til riðu eða vegna kinda sem drepast heima við eða er lógað vegna veikinda eða vanþrifa.

Samkvæmt reglugerð nr. 651/2001 um útrýmingu á riðuveiki og bætur vegna niðurskurðar er svæði skilgreint sem sýkt svæði í 20 ár frá staðfestingu riðutilfellis í hólfinu. Á sýktum svæðum eru allir flutningar á fé milli hjarða innan svæðanna og frá þeim (yfir varnarlínur) bannaðir. Hafi hins vegar ekkert tilfelli verið staðfest í 20 ár í varnarhólfi, telst það hreint. 

Skjálfandahólf er skilgreint sem svæðisskipt varnarhólf þar sem Skútustaðahreppur, Engidalur og Lundarbrekka og bæir þar fyrir sunnan teljast ósýkt svæði í annars sýktu hólfi. Þann 31. desember 2019 mun allt varnarhólfið Skjálfandahólf losna undan höftum riðuskilgreiningar, að því gefnu að riða greinist ekki í hólfinu fram að þeim tímapunkti. Þá má flytja fé frjálst innan hólfsins, en áfram gildir þó að ekki er heimilt að flytja fé milli varnahólfa, þ.e.a.s. yfir varnarlínur nema frá líflambasölusvæðum að fengnu leyfi Matvælastofnunar.

Síðasta riðutilfelli í Skjálfandahólfi var á bænum Lóni í Kelduhverfi árið 1999 en þá var alls rúmlega 400 kindum lógað. Tilfellið var talið enduruppkoma frá árinu 1991 en þá var stutt síðan skorið hafði verið niður á bæjum í sveitinni haustið 1986. Þá var skorið niður allt að 6000 fjár á 19 bæjum í Þingeyjarsýslum, þar af var helmingur fjárins í Kelduhverfi, eða um 3000.

Í ljósi sögunnar verður áfram mikilvægt að sauðfjáreigendur séu vakandi fyrir einkennum riðuveikinnar og hafi samband við héraðsdýralækni ef kind sýnir grunsamleg einkenni. Einnig ef kindur drepast heima við eða þeim slátrað vegna sjúkdóma eða slysa. Þá skal hafa samband við Matvælastofnun og séð verður til þess að sýni séu tekin, bændum að kostnaðarlausu.

Aðgerðir til að útrýma riðuveiki hérlendis eru að bera árangur. Á næstu sex árum verður hægt að aflétta höftum í þremur hólfum til viðbótar, þ.e. ef ekki koma upp ný tilfelli. Að 6 árum liðnum verði þá aðeins fjögur riðuhólf í landinu.

Hér má sjá hvenær hólfin losna undan höftum riðuskilgreiningar, að því gefnu að engin ný tilfelli komi upp. 

Aflétting riðuhafta á næstu árum

Á línuritinu hér að neðan má sjá fjölda staðfestra riðutilfella á ári frá árinu 1987 en árinu áður var tekin sú ákvörðun að herða á aðgerðum gegn riðuveiki. Þær aðgerðir fólust fyrst og fremst í niðurskurði á öllu fé á þeim bæjum þar sem riðuveiki var staðfest. Síðan tók við skipulögð hreinsun á bænum og fjárleysi í 2 ár. Eins og sjá má á grafinu skiluðu þessar aðgerðir fljótt árangri og hefur tilfellum fækkað mikið.

Ítarefni

Uppfært 11.12.19 kl. 14:37


Getum við bætt efni síðunnar?