Fara í efni

Engin riða fannst í kindum sem voru felldar á Merki

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Við skimun vegna riðuveiki í sýnum frá s.l. ári fannst kind á Merki á Jökuldal með afbrigðilega riðu NOR98. Ekki er hægt að staðfesta riðuveiki eða afbrigðilega riðu NOR98 í lifandi kindum, svo skimað er eftir þessum sjúkdómum í sýnum frá sláturhúsum eða í kindum sem hafa verið felldar eða drepist heima.


NOR98 fannst fyrst í Noregi 1998 og á Íslandi 2004. Var þetta 4. kindin hér á landi sem þessi sjúkdómur greinist í. Afbrigðileg riða NOR98 er ekki eins smitandi og riðuveiki og hún finnst frekar í gömlum kindum. Þegar riðuveiki greinist á búum er hjörðin felld skilyrðislaust, en vegna þess að hér var um NOR98 að ræða var ákveðið að leggja til að elstu kindurnar á Merki yrðu felldar og rannsakað hvort í þeim leyndist riðuveiki eða afbrigðileg riða NOR98.


Nú liggur fyrir niðurstaða úr greiningu á þeim 194 kindum frá Merki sem voru felldar og ekki fannst riða eða afbrigðileg riða NOR98 í neinni þeirra.


Næstu ár verða kindur á Merki og þeim bæjum sem mestur samgangur er við undir sérstöku eftirliti og rannsakað verður hvort riða eða afbrigðileg riða NOR98 finnst í fullorðnum kindum sem falla eða verða felldar á þessum búum. Merki er í Héraðshólfi og þar er bannað að flytja fé á milli hjarða.


Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?