Fara í efni

Ekki ráðlagt að borða kjöt eða spik af grindhval

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fyrr í mánuðinum bárust fréttir af grindhvalavöðu sem synti á land milli Rifs og Ólafsvíkur. Margir munu hafa notað tækifærið og skorið sér bita til matar af þessum hvalreka. Nágrannar okkar í Færeyjum hafa öldum saman nýtt grindhval sem syndir á land, eða er rekinn á land við veiðar. Þó er svo komið að vegna mengunarefna í grindhvalhafa færeysk yfirvöld frá 2008 ráðlagt fólki alfarið frá því að neyta afurðanna.

Matvælastofnun og Embætti Landlæknis hvetja fólk til að staldra við áður en kjöt eða spik af grindhvölum er notuð til matar. Þrávirk lífræn efni og þungmálmar safnast upp í lífríkinu og finnast í meira magni eftir því sem ofar dregur í fæðukeðunni. Grind er tannhvalur og er efst í fæðukeðjunni. Niðurstöður rannsókna sýna að kjöt af grindhval inniheldur tvöfalt til þrefalt leyfilegt hámarksgildi kvikasilfurs í sjávarafurðum. Kvikasilfur er margfalt hærra í grindhval en íslensku hrefnukjöti. Auk þess er mjög hátt innihald af díoxíni, PCB efnum  og öðrum þrávirkum lífrænum efnum í spiki grindhvala. Þessi mikli munur liggur í fæðuvali, en hrefnan er skíðishvalur sem síar sjó til að afla fæðu en grindhvalur er tannhvalur og þeir veiða stærri fiska sér til matar.

Fyrir þá sem samt vilja nýta hvalrekann og smakka grindhval eru hér færeysku ráðleggingar sem giltu frá 1998 þar til 2008 þegar farið var að ráðleggja gegn allri neyslu á grindhvali.

Spik

Vegna hás PCB innihalds í spiki er ráðlagt að fullorðnir borði grindhvalsspik mest einu sinni til tvisvar í mánuði. Hins vegar er besta leiðin til að vernda fóstur gegn hugsanlegum áhrifum PCB efna að stúlkur og konur borði ekki spik fyrr en þær hafa gengið með og fætt sín börn. 

Hvalkjöt

Kvikasilfur innihald í kjöti grindhvalsins er mjög hátt og því er ráðlagt að fullorðnir borði ekki meira en eina til tvær máltíðir í mánuði. Konur sem búast við að verða ófrískar innan 3 mánaða, ófrískar konur og konur með barn á brjósti skulu sleppa því að borða kjöt af grindhval. 

Innmatur

Lifur og nýru grindhvals ætti alls ekki að borða.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?