Fara í efni

Eitt ár frá innleiðingu Skráargatsins á Íslandi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í dag er liðið eitt ár frá innleiðingu Skráargatsins á Íslandi. Skráargatið er opinbert samnorrænt merki sem á að aðstoða neytendur við að velja hollari matvörur. Matvælastofnun og Embætti landlæknis standa sameiginlega á bak við Skráargatið og fagna nú sameiginlega fyrsta ári þess á íslenskum markaði.

Einfalt að velja hollara

Slagorð Skráargatsins er „Einfalt að velja hollara“. Í því felst einmitt grundvallarmarkmið merkisins, þ.e. að einfalda neytendum val á hollari matvöru. 

 
Ef varan ber merkið þýðir það að hún uppfyllir ákveðin skilyrði varðandi innihald næringarefna sem skilgreind eru fyrir hennar matvælaflokk. Hún inniheldur þá minni og hollari fitu, minni sykur, minna salt og meira af trefjum og heilkorni en aðrar vörur í sama flokki sem ekki uppfylla skilyrðin til að bera Skráargatið. 

Á þessu fyrsta ári frá innleiðingu Skráargatsins hefur mátt sjá að matvælafyrirtæki eru að nýta sér merkið í auknum mæli til þess að beina athygli neytenda að vörum sínum og þróa hollari vörur í samræmi við markmið og skilyrði Skráargatsins. Þetta er mjög æskilegt þróun því hún stuðlar að auknu úrvali af hollum matvælum á markaði. Þessi aukning skráargatsmerktra vara á markaði sýnir að neytendur hafa tekið vel á móti Skráargatinu.

Þar sem Skráargatið er opinbert merki er mikilvægt að fylgjast vel með þeim vörum sem nota merkið. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga fylgjast sérstaklega með því að farið sé eftir reglum um notkun Skráargatsins og geta neytendur á Íslandi treyst því að svo er.

Við eigum enn langt í land til að geta borið okkur saman við samstarfsþjóðirnar um Skráargatið, Svíþjóð, Noreg og Danmörku, en þróun Skráargatsins hér á landi sýnir að við erum á réttri leið og því ber að sjálfsögðu að fagna líka.

Nú er „einfalt að velja hollara“ – kynntu þér málið á skraargat.is.


Getum við bætt efni síðunnar?