Eftirlit með salmonellu í svínarækt
Frétt -
26.06.2009
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
|
|
Þann 1. október 2006 var eftirliti breytt með salmonellu í svínrækt. Nú er fylgst með salmonellu í svínræktinni með þrennum hætti í stað stopulla sýnatakna úr niðurföllum svínasláturhúsa. Helsta breytingin er sú að litið er á alla svínaræktina í heild sinni sem áhættuþátt m.t.t. salmonellu í stað einstakra búa. Þrátt fyrir breytt og öflugt eftirlit er aldrei hægt að fyrirbyggja með öruggum hætti að salmonella berist á markað með kjöti. Neytendur eru því hvattir til þess að kynna sér leiðbeiningar um meðferð á hráu kjöti hér. |
Eftirlit með salmonellu í svínarækt er eftirfarandi:
-
Kjötsafaprófið Við slátrun grísa eru tekin vöðvasýni úr svínaskrokkum frá öllum svínabúum landsins. Í safanum, sem rennur úr frystum vöðvasýnunum við afþíðingu þeirra, eru mæld mótefni gegn salmonellu. Þessi mæling gefur ákveðna mynd af smitálagi salmonellu á svínabúinu þaðan sem grísirnir koma. Smitálagið er reiknað út sem stuðull og fari hann yfir ákveðin mörk fellur búið um flokk. Flokkarnir eru þrír þar sem bú í flokki 1 hafa stuðul á bilinu 0 30, bú í flokki 2 hafa stuðul á bilinu 31 60 og bú í flokki 3 hafa stuðul hærri en 60. Svínabú sem raðað er í flokk 1 slátra með hefðbundnum hætti án kvaða. Svínabú sem raðað er í flokk 2 geta ekki slátrað með hefðbundnum hætti því allir skrokkar frá búinu eru geymdir í sláturhúsinu á meðan niðurstöður berast úr stroksýnum (sjá lið 2). Bú sem raðast í flokk 3 þurfa að lúta sömu reglum auk þess sem grísum frá slíkum búum er slátrað á fyrirfram ákveðnum dögum. Hingað til hefur engu svínabúi verið raðað í flokk 3.
-
Stroksýnin Við slátrun grísanna eru tekin stroksýni af skrokkum frá öllum svínabúum landsins í hvert sinn sem grísum er slátrað. Sýnin eru fyrst og fremst tekin til þess að kanna hvort yfirborð skrokkanna sé mengað af salmonellu. Sýnatakan gefur þess vegna mynd af krossmengun í sláturhúsunum. Sýnin eru rannsökuð í hrað¬prófi og eru þau metin í lagi ef salmonella mælist ekki í þeim (sýni eru neikvæð m.t.t. salmonellu). Mælist salmonella í sýninu hefur það afleiðingar í för með sér næst þegar sama svínabú slátrar grísum. Þessi viðbrögð geta verið óréttlát í eðli sínu fyrir viðkomandi svínabú sérstaklega ef svínin hafa smitast á leið í slátur¬húsið, í sláturhúsréttinni eða mengast af öðrum grísum við slátrun þeirra, en ekki verið smituð af salmonellu á búinu sem þau ólust upp á.
Niðurstaða úr hraðprófinu gildir sem endanlegt svar um hvort skrokkur sé metinn smitaður eða ekki. Úr mörgum stroksýnum er hins vegar reynt að rækta salmonelluna svo finna megi út um hvaða sermisgerð hennar sé að ræða. Þó svo ekki takist að rækta salmonellu úr stroksýni breytir það ekki niðurstöðu úr hraðprófinu eins og áður segir.
-
Saursýnin - Einu sinni á ári eru tekin saursýni á öllum svínabúum landsins. Þau hafa fyrst og fremst þann tilgang að reyna að staðfesta hvaða sermisgerðir salmonellunnar eru á ferðinni hverju sinni. Þar sem þessi sýni eru tekin á svínabúunum sjálfum fer ekki á milli mála hvaðan salmonellan kemur reynist þau eða hluti þeirra jákvæð m.t.t. salmonellu (salmonella ræktast úr sýnunum).
Þar sem mikill fjöldi stroksýna er tekinn í svínasláturhúsum landsins og af mörgum skrokkum, en af mismunandi ástæðum, gefur það ekki rétta mynd af stöðu mála að slá saman öllum sýnum og birta niðurstöður þannig, eins og dæmi eru um að gert hafi verið. Með því að skipta stroksýnunum í tvo hluta, A og B, má fá gleggri og samanburðarhæfari mynd af eftirlitinu og niðurstöðum úr því. Þetta verður skýrt út hér neðar.
Hafa verður í huga að við eðlilegar aðstæður greinast fá sýni jákvæð m.t.t. salmonellu. Í eðlilegu árferði eru stroksýni tekin með hefðbundnum hætti eins og kveðið er á um í sérstakri handbók Matvælastofnunar um eftirlit með salmonellu í svínum. Í handbókinni er kveðið á um að taka 1, 2 eða 3 safnsýni af svínaskrokkunum frá hverjum framleiðanda, allt eftir því hversu mörgum grísum hann slátrar hverju sinni. Í einu safnsýni við eðlilegar aðstæður eru sýni af 10 skrokkum. Þar af leiðandi eru tekin sýni af 10 (ef slátrað er 40 eða færri grísum), 20 (ef slátrað er 41 120 grísum) eða 30 skrokkum (ef slátrað er fleiri en 120 grísum) samkvæmt venju. Þessi safnsýni (1, 2 eða 3) mynda A hluta stroksýnanna.
Ef salmonella greinist í stroksýni eru tekin stroksýni af öllum skrokkum næst þegar grísum er slátrað frá viðkomandi svínabúi. Skrokkar bíða þar til niðurstöður liggja fyrir úr hraðprófinu. Ef svínabú fellur úr flokki 1 í flokk 2 eða 3 vegna kjötsafaprófsins, eru sömuleiðis tekin stroksýni af öllum skrokkum frá viðkomandi búi og skrokkar geymdir í sláturhúsinu þar til niðurstaða liggur fyrir úr hraðprófi. Þessi stroksýni mynda B hluta stroksýnanna.
Ef stroksýni af skrokkum í B hluta reynast jákvæð mega skrokkar og afurðir af þeim ekki fara á markað án hitameðhöndlunar. Við meðferð á þessum skrokkum og við vinnslu þeirra þarf að gæta þess sérstaklega að ekki verði mengun milli hreinna og óhreinna svæða og milli mengaðra og ómengaðra afurða. Þetta á bæði við um sláturhús og kjötvinnslur.
Eðli málsins samkvæmt fjölgar stroksýnum í B hlutanum þegar fleiri stroksýni greinast jákvæð m.t.t. salmonellu í A hlutanum. Þeim fækkar af sömu ástæðum í A hlutanum. Sömuleiðis má gera ráð fyrir að fleiri sýni greinist jákvæð í B hlutanum, einfaldlega vegna þess að þar eru fleiri sýni tekin en ella, verið er að taka stroksýni af skrokkum þar sem líkur á salmonellu eru meiri og því auknar líkur á að greina jákvæð sýni.
Samanburður á niðurstöðum úr A og B hluta stroksýnanna verður því réttlátari og gleggri samanborið við að steypa öllum sýnum í einn hluta og birta niðurstöður um fjölda sýna og hlutfall jákvæðra sýna úr honum eins og dæmi eru um að gert hafi verið af hálfu stofnunarinnar við kynningu niðurstaðna.
Hér má sjá súlurit með niðurstöðum úr greiningu stroksýna í A og B hluta og eins og vænta má er hlutfall jákvæðra sýna hærra í B hluta þar sem þau sýni varða sértækt eftirlit með skrokkum frá búum þar sem salmonella hafði áður greinst við reglubundið eftirlit. Súluritin sýna einnig að sértækt eftirlit hefur aukist undanfarna mánuði vegna aukinnar tíðni salmonellu við reglubundið eftirlit í sláturhúsum.