Fara í efni

Eftirlit með notkun dýralyfja og lyfjaleifum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Að undanförnu hafa komið út nýjar reglur sem varða eftirlit með notkun dýralyfja og lyfjaleifum í dýraafurðum.  Má þar nefna reglur um eftirlit með efnaleifum í afurðum dýra s.s. kjöti, mjólk og eggjum en einnig um rafræna skráningu dýralækna á dýrasjúkdómum og lyfjameðhöndlun. 


Neytendavernd er megin tilgangur þessara nýju reglna. Þeim er ætlað  að stuðla að bættu  heilsufari dýra og heilnæmi afurða með auknu eftirliti með lyfjanotkun og þannig hindra að lyfjaleifar berist með dýraafurðum á disk neytenda og valdi þeim heilsutjóni.


Eins og kunnugt er þá tók matvælalöggjöf Evrópusambandsins að fullu gildi hér á landi í nóvember 2011. Mikil vinna hefur farið fram hér á landi á undanförnum misserum  við innleiðingu löggjafarinnar bæði hjá eftirlitsaðilum og hjá fyrirtækjum sem eiga að starfa samkvæmt henni. Eftirlit með skráningu dýralyfja og lyfjasölu dýralækna er í höndum Lyfjastofnunar, en Matvælastofnun hefur eftirlit með notkun og ávísun dýralyfja og sér einnig um sýnatökur og rannsóknir vegna lyfjaleifa í matvælum. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur eftirlit með framkvæmd löggjafarinnar hér á landi. Af því tilefni komu fulltrúar ESA í eftirlitsheimsókn í desember 2011 til að fara yfir  framkvæmd á eftirliti með efnaleifum í dýraafurðum, með sérstakri áherslu á eftirlit með notkun dýralyfja. Matvælastofnun og Lyfjastofnun hafa nýlega borist skýrsla ESA vegna eftirlitsins og þar koma fram gagnlegar ábendingar um það sem betur má fara og hefur stofnunin í samvinnu við Lyfjastofnun þegar hafið úrvinnslu þessara ábendinga. 


Eftirlit með aðskotaefnum í dýraafurðum hefur verið framkvæmt hér á landi um langt skeið og hefur magn þessara efna verið mjög lágt. Til að uppfylla strangari kröfur nýju löggjafarinnar um eftirlit með lyfjanotkun hefur Matvælastofnun að undanförnu aukið eftirlit sitt með notkun dýralyfja. Meðal annars hefur verið útbúinn rafræn gagnagrunnur (HEILSA) fyrir skráningu dýralækna á dýralyfjum. En skv. reglugerð nr. 303/2012 skulu allir dýralæknar skrá sjúkdómsgreiningar og notkun og ávísun lyfseðilsskyldra lyfja í nautgripi og hross í gagnagrunninn eftir 1. nóvember nk. Skráning á notkun lyfja í aðrar dýrategundir munu síðan fylgja í kjölfarið. Tilgangur skráninga í gagnagrunninn er að stuðla að aukinni neytendavernd með því að auðvelda yfirvöldum að hafa eftirlit með lyfjanotkun í dýrum og lyfjaleifum í búfjárafurðum. 


Þá var af sama tilefni gefin út reglugerð nr. 30/2012 í byrjun þessa árs sem tekur á eftirliti með efnaleifum í afurðum dýra og er henni ætlað að tryggja að fullnægjandi eftirlit sé haft með efnum og lyfjaleifum í afurðum dýra.


Matvælastofnun hélt í dag fræðslufund um eftirlit með lyfjanotkun og lyfjaleifum í dýrum og má nálgast glærur og upptöku af fundinum á vef Matvælastofnunar undir Útgáfu - Fræðslufundir.



Getum við bætt efni síðunnar?