Eftirlit með fiskframleiðendum á innanlandsmarkaði
Frétt -
14.12.2009
Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
|
|
Matvælastofnun skal
skv. lögum nr. 93/1995 um matvæli 6. gr. lið e, annast opinbert
eftirlit varðandi meðferð, flutning, geymslu, vinnslu og dreifingu
sjávarafurða, að undanskilinni smásölu. Fram til þessa hefur
heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga (HES) annast eftirlit hjá flestum
framleiðendur fiskafurða, sem eingöngu hafa framleitt fyrir
innanlandsmarkað. Þessir framleiðendur munu nú færast undir eftirlit
Matvælastofnunar (MAST). Þessi færsla til MAST felur í sér að framvegis munu sérlög nr. 55/1998 um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða með síðari breytingum og þær reglugerðir sem settar eru með stoð í þeim lögum, einnig gilda gagnvart þeim fyrirtækjum sem framleiða fyrir markað innanlands. |
Eftirlitsfulltrúar MAST munu á næstu vikum heimsækja fiskvinnslufyrirtæki sem hafa ekki verið undir eftirliti MAST. Í fyrstu heimsókninni verður lögð áhersla á að fá yfirsýn yfir stöðu fyrirtækjanna og starfsemi.
Í framhaldi af heimsókn í fyrirtækin verður stillt upp tímasettri aðgerðaáætlun um úrbætur þar sem þess er þörf. Að uppfylltum þeim úrbótum fær fyrirtækið úthlutað vinnsluleyfi (samþykkisnúmeri).
Á það skal bent að óheimilt er skv. lögum nr. 55/1998 að veiða, vinna eða geyma sjávarafurðir og afurðir úr fiskeldi án vinnsluleyfis frá MAST. Það er því mikilvægt að þessi tilfærsla gangi yfir á sem skemmstum tíma.
Undanskildar þessari tilhögun eru þær fiskvinnslur þar sem öll framleiðslan er vegna sölu beint til neytenda á staðnum. Þau fiskvinnslufyrirtæki verða eftir sem áður undir matvælaeftirliti HES.
Þeir framleiðendur sem ekki hafa fengið bréf um þessa breyttu tilhögun, en telja að starfsemi þeirra falli undir eftirlit MAST, eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu MAST á Selfossi í síma 530 4800, með faxi í nr. 530 4801 eða senda tölvupóst á mast@mast.is
Nánari upplýsingar gefa Guðjón Gunnarsson og Garðar Sverrisson hjá Matvælastofnun.