Fara í efni

EFSA leggur til lækkun viðmiðunargildis díoxína í matvælum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur kynnt nýtt vísindaálit um hættu fyrir menn og dýr vegna díoxíns og díoxínlíkra PCB-efna í matvælum og fóðri. Hætta getur stafað af þessum efnum í matvælum skv. álitinu og leggur EFSA til sjöfalda lækkun viðmiðunargilda á grundvelli nýrra rannsókna.

Álitið

EFSA leggur til að lækka viðmiðunargildi fyrir ásættanlega inntöku díoxína og díoxínlíkra PCB-efna í 2 pg*TEQ** á kg líkamsþunga á viku, en núverandi gildi er 14 pg TEQ á kg líkamsþunga á viku. Ásættanleg vikuleg inntaka er það magn af efnunum sem við megum innbyrða vikulega, allt lífið, án þess að bera heilsuskaða af.

Í álitinu kemur fram að EFSA telur að hætta stafi af þessum efnum í matvælum og að upplýsingar um neyslu bendi til að finna megi dæmi um neyslu yfir viðmiðunarmörkum í öllum aldurshópum.

Álitið byggir á nýjum faraldursfræðilegum upplýsingum og einnig á niðurstöðum dýratilrauna um hættuleg áhrif þessara efna á heilsu. Rannsóknir benda til að díoxín og PCB efni geti meðal annars haft áhrif á sæði, hormón og tannglerung, ef við verðum fyrir áhrifum þess á viðkvæmum tímabilum í þroska. Þó skal bent á að styrkur þessara efna í umhverfinu hefur lækkað verulega á undanförnum áratugum.

Hvaða áhrif hafa þessi nýju mörk á ráðleggingar yfirvalda um mataræði?

Díoxín og PCB-efni eru þrávirk lífræn efni sem geta borist í matvæli út frá mengun í umhverfinu. Þau safnast upp í lífkeðjunni og er einkum að finna í fituvef dýra. Megin uppspretta þessara þrávirku efna í fæði Evrópubúa er fiskur (einkum feitur fiskur), kjöt og mjólkurvörur.

Matvælastofnun telur ekki ástæðu til að vara við fiskneyslu eða neyslu annarra tiltekinna matvæla að svo stöddu. Sérstaklega með tilliti til þess að rannsóknir tengdar fiskneyslu benda allar til jákvæðra heildaráhrifa fiskneyslu á heilsu manna. Samkvæmt niðurstöðum mælinga Matís er innihald efnanna undir þessum viðmiðunarmörkum fyrir flestar tegundir fisks á Íslandsmiðum.

Hvaða áhrif hefur álitið á matvælalöggjöf Evrópu? 

Álit Matvælaöryggisstofnunarinnar mun nú verða sent framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til frekari meðferðar. Þar hefst nú vinna við að túlka þessar niðurstöður með tilliti til þeirra reglugerða sem er í gildi um aðskotaefni í matvælum og fóðri.

Það er rétt að árétta að það eru ákveðnir óvissuþættir í álitinu sem þarf að taka tillit til áður en hægt er að setja ný hámarksgildi fyrir díoxín og díoxínlík PCB-efni í matvælum og fóðri.

Þetta á einkum við um hugsanlega ofmetin áhrif einnar tegundar af díoxínlíkum PCB-efnum. Þessi óvissa skiptir miklu máli fyrir áhrif á fiskneyslu þar sem allt að 50% af heildarmagni díoxíns og díoxínlíkra PCB-efna í fiski er þetta tiltekna efni.

Gera má ráð fyrir að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins muni í kjölfar þessara niðurstaðna fara fram á að EFSA framkvæmi svokallað áhættu- og ávinningsmat, þar sem jákvæð áhrif fiskneyslu á heilsu eru metin og vegin á móti hugsanlegum neikvæðum áhrifum díoxíns og díoxínlíkra PCB-efna í fiski.

Ítarefni

*pg: píkógrömm = 10-12 grömm.

** TEQ (Toxic Equivalency Factor) = jafngildisþáttur eituráhrifa: eituráhrif mismunandi díoxína og PCB efna eru vegin saman sem hlutfall af eitraðasta formi díoxíns (TCDD).


Getum við bætt efni síðunnar?