Fara í efni

Dýralæknaþjónusta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Það er af sem áður var þegar héraðsdýralæknar sinntu öllum störfum á starfssviði dýralækna í sínu héraði enda voru þeir um þrjátíu á öllu landinu. Skipulag dýralæknaþjónustu á landinu hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár og áratugi. Núna sinna héraðsdýralæknar og eftirlitsdýralæknar aðeins opinberum eftirlitsstörfum í alls sex umdæmum. Aðrir dýralæknar sinna dýralækningum og ráðgjöf til dýraeigenda, flestir með starfsstöð á þéttbýlum svæðum. Margir sérhæfa sig í dýrategundum, aðallega gæludýrum og hrossum. Flestir dýralæknar sinna þó öllum dýrategundum og þá sér í lagi starfi þeir á landsbyggðinni.

Þjónustusvæði ákveðin í reglugerð

Í því skyni að tryggja velferð dýra og dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu svo og bráðaþjónustu hefur ráðherra sett reglugerð  um hvernig tryggja skal starfsaðstöðu og greiðslu staðaruppbótar og/eða ferðakostnaðar dýralæknis sem tekur að sér að veita slíka þjónustu. Dýralæknir sem skuldbindur sig til að vera ætíð til staðar og sinna lækningum dýra í dreifðum byggðum landsins fær greiddar staðaruppbætur. Þetta eru svæði með tiltölulega fá dýr og þar sem ekki er talið líklegt að dýralæknir hafi næg verkefni til að geta sett upp starfsstöð og framfleytt sér alfarið með sölu á dýralæknaþjónustu. Reglugerð nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum skilgreinir þjónustusvæðin, en þau eru níu. Matvælastofnun var falið að auglýsa þjónustusvæðin laus til umsóknar fyrir dýralækna sem þar vilja starfa, en stofnunin er ekki ábyrg fyrir þjónustu þeirra, heldur starfa þeir á eigin ábyrgð á grundvelli þess þjónustusamnings sem gerður er.

Þjónustusamningar renna út í haust

Matvælastofnun gerði  þjónustusamninga við dýralækna fyrir öll svæðin sem skilgreind eru í reglugerðinni, en nokkurn tíma tók að tryggja samninga á öllum svæðum við dýralækna sem þar höfðu fasta búsetu. Í samningunum koma fram skyldur dýralæknanna til að sinna allri dýralæknisþjónustu gegn tiltekinni þóknun. Nú eru tæp þrjú ár frá því nýtt skipulag dýralæknaþjónustu tók gildi og þjónustusamningar við dýralækna renna út í haust, en þeir voru gerðir til þriggja ára. Nú er rétti tíminn til að staldra við og fara yfir hvernig til hefur tekist því við ákvörðun um hvar þörf er á opinberum greiðslum fyrir dýralæknaþjónustu skal ráðherra hafa samráð við Dýralæknafélag Íslands, Bændasamtök Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga og Matvælastofnun. Hlutaðeigandi félagssamtök eru því hvött til að kanna hvernig til hefur tekist og koma áliti sínu sem fyrst á framfæri við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Vaktsvæði ákveðin af Alþingi

Til að tryggja velferð dýra og almenna þjónustu við dýraeigendur er ákvæði um bakvaktir dýralækna í lögum nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr. Dýralæknir skal jafnan vera á bakvakt utan venjulegs dagvinnutíma á hverju vaktsvæði og héraðsdýralæknir skipuleggur þær í samráði við dýralækna sem þar starfa. Heimilt er að skipta bakvakt innan sama vaktsvæðis milli fleiri dýralækna samtímis. Við skipulagningu bakvakta er ætlast til að tekið sé mið af vegalengdum og umfangi þjónustu innan viðkomandi vaktsvæða. Komi upp ágreiningur um skiptingu bakvakta innan vaktsvæða skal leita úrskurðar Matvælastofnunar. Vaktsvæðin eru ákveðin í lögunum. Nokkur vaktsvæði eru stór og með fjölda dýra, en þó ekki í öllum tilvikum þannig að fjöldi dýralækna starfi innan þeirra og hafi þar búsetu. Bændur hafa sem dæmi kvartað vegna vaktsvæðis sem nær frá botni Hrútafjarðar og út í Fljót og spannar því báðar Húnavatnssýslurnar og Skagafjarðarsýslu. Þá eru dæmi um að kvartað hafi verið yfir kostnaði við að leita til dýralæknis á bakvakt, en akstursstyrkur umfram 80 km í hverri vitjun nær t.d. aðeins til lögbýla. Markmiðið með bakvaktakerfinu er hins vegar að tryggja velferð allra dýra. Kvörtunum sem þessum er jafnan beint að Matvælastofnun, sem er ekki óeðlilegt, þar sem stofnunin hefur eftirlit með velferð dýra. Hængurinn er hins vegar sá að Alþingi setur lög og ákveður stærð vaktsvæða. Það er því ráðuneytið sem fer með yfirstjórn þessara mála og er rétti aðilinn til að leggja til breytingu á núgildandi fyrirkomulagi ef tilefni er til. Það er því ekki síður við hæfi að koma ábendingum um úrbætur beint til ráðuneytisins, þegar lagðar eru til breytingar á núverandi skipan dýralæknaþjónustu í landinu.

 

 


Getum við bætt efni síðunnar?