Fara í efni

Dýraeftirlit og velferð sauðfjár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Um síðustu áramót fluttist búfjáreftirlit frá sveitarfélögum til Matvælastofnunar. Sex starfsmenn voru þá ráðnir til starfa hjá stofnuninni til að sinna dýraeftirliti á landinu öllu undir stjórn héraðsdýralækna, hver á sínu svæði. Frá því í febrúar hafa dýreftirlitsmenn Matvælastofnunar heimsótt nokkur hundruð bæi og búfjár- og gæludýraeigendur bæði í dreifbýli og þéttbýli. Hlutverk dýraeftirlitsmanna er fyrst og fremst að hafa eftirlit með að dýrahald sé í samræmi við þau lög og reglugerðir sem sett hafa verið um aðbúnað og meðhöndlun.

Ný lög um velferð dýra nr. 55/2013 og ný lög um búfjárhald nr. 38/2013 voru samþykkt á síðasta ári, auk þess sem ný reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu nr. 1160/2013 leit dagsins ljós. Þegar kemur að velferð sauðfjár er það reglugerð nr. 60/2000 sem er grunnurinn að störfum dýraeftirlitsmanna en nýjar reglugerðir um velferð og aðbúnað hinna margbreytilegu dýrategunda eru í smíðum.

Í þessari samantekt verður tæpt á þeim þáttum sem helst voru í ólagi í yfirreið dýraeftirlitsmanna í vetur og vor en einnig getið nokkurra annarra þátta, þeirra reglna sem starfað er eftir. Hér verður fjallað um geit- og sauðfjárrækt.

Árvekni og eftirlit

Í reglum um sauðfé eru gerðar kröfur um meðferð, umhirðu og aðbúnað sauð- og geitfjár með það að markmiði að stuðla að heilbrigði og velferð dýranna. Til að þessu markmiði verði náð ber hverjum þeim sem ætlar að eignast sauðfé eða geitfé að tilkynna það til Matvælastofnunar svo lögbundnar skráningar, merkingar og eftirlit geti hafist. Þá ber umráðamönnum sauðfjár og geitfjár að tryggja gott aðgengi eftirlitsaðila að öllum dýrum og öllum þeim stöðum þar sem þau eru haldin.

Auk opinbers eftirlits skulu umráðamenn sinna daglegu eftirliti með sauðfé og geitfé á húsi. Ljóst er að þeir búskaparhættir að hafa fé á húsi, sem aðeins er litið til einu sinni til þrisvar í viku, eru ekki í samræmi við gildandi reglur. Nokkur dæmi voru um vanhirðu á hornum og þó sérstaklega klaufhirðu, ekki síst þar sem féð gengur á taði.

Dýralæknum einum er heimilt að afhorna kindur og geitur þannig að fari inn í sló og gelda hrúta og hafra. Þessu ákvæði er mögulegt að fylgja eftir bæði heima á bæjum og í sláturhúsi.

Talsverður misbrestur var á lyfjaskráningum, einkum hjá þeim sem ekki eru í gæðastýringu í sauðfjárrækt, en sauðfjár- og geitfjáreigendum ber að skrá alla lyfjagjöf og geta framvísað þeirri skráningu, auk þess sem lyf skulu geymd í lokuðum hirslum.

Fóðrun og brynning

Í einhverjum tilvikum, þó fá séu, var misbrestur á að fóðrunarákvæðum laga væri fylgt. Allt fé á að vera vel fóðrað og gemlinga og vanmetafé á að fóðra sér. Allt féð á ávallt að hafa óheftan aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni. Þarna þarf að athuga að ekki er í lagi að fé sé aðeins hleypt út einu sinni til tvisvar á sólarhring til að drekka eða að öll vatnsker/fötur séu tómar við komu eftirlitsmanns.

Merkingar og skráning

Skylt er að einstaklingsmerkja sauðfé og geitfé. Merkingar og skráningar skulu fara eftir lögum og reglum sem gilda á hverjum tíma um þessi atriði. Sá þáttur merkinganna sem helst var í ólagi í vetur var að fullorðinsmerki voru ekki komin í gemlinga fyrir sjö mánaða aldur eins og tilskilið er í reglugerð.

Smitvarnir og þrifnaður

Umhverfi og næsta nágrenni fjárhúsa skal vera þrifalegt til varnar óhreinindum og smitefnum. Á nokkrum búum sem heimsótt voru var þetta ákvæði brotið, einkum á það við ef taðhaugar eru skammt frá húsum eða við hús.

Í örfáum tilvikum var sauðfé og geitfé haldið með öðru búfé á húsi. Slíkt sambýli þar sem bein snerting eða saurmengun getur átt sér stað er bannað.

Skýrt er í reglum að gripir skulu vera hreinir og féð rúið a.m.k. einu sinni á ári. Á nokkrum stöðum reyndist þrifnaði fjárins ábótavant, einkum var þar um að kenna of blautu taði (undirburður ekki nógur eða ófullnægjandi loftræsting). Í örfáum tilvikum sást fé í tveimur reyfum sem telst óhæfa

Húsakostur og slysavarnir

Öllu sauðfé og geitfé skal tryggt nægilegt húsaskjól á vetrum og er það raunin í langflestum tilfellum. Í einstaka tilfellum hafði viðhaldi gólfa ekki verið sinnt en gólf skulu vera þannig gerð að tryggt sé að fé festi ekki fætur eða skaði sig að öðru leyti.

Til að unnt sé að tryggja slysavarnir þarf efnisval í einangrun fjárhúsa að fara eftir byggingarreglugerð. Á þessu ákvæði var allvíða misbrestur, einkum þar sem einangrunarplast (frauðplast) hefur verið notað í einangrun þaka.

Lýsing

Á öllum húsum skulu vera gluggar sem tryggja að þar gæti dagsbirtu. Þar skal einnig vera önnur lýsing svo ávallt sé hægt að fylgjast með öllu fé í húsinu. Á þessum þáttum var misbrestur á nokkrum búum sem bæta þarf úr, einkum var sumstaðar skortur á annarri lýsingu svo ávallt væri hægt að fylgjast með öllu fé í húsinu.  

Útivist

Öllu sauðfé og geitfé skal tryggður aðgangur að beit í 12 vikur hið minnsta á tímabilinu frá 1. maí til 30. september. Gætt skal að því að ekki sé of þröngt í högum. Óheimilt er að hafa fé á útigangi á vetrum þar sem ekki verður komið við fóðrun og eðlilegu, reglubundnu eftirliti. Veiting undanþáguheimilda á stöðum þar sem hefð er fyrir því að fé gangi úti allan veturinn s.s. í óbyggðum eyjum umhverfis landið er til skoðunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Rými

Á þeim búum sem heimsótt voru síðastliðinn vetur var talsvert um að ýmis ákvæði um rýmisþörf væru brotin, einkum kröfur um legu- og jötupláss.

Gólfrými skal vera það mikið að allt féð geti legið samtímis og við gjafagrindur til sjálffóðrunar skal vera átrými í einu fyrir a.m.k. þriðjung þess fjár sem hefur aðgang að þeim. Þar skal einnig vera stöðugt aðgengi að fóðri.

Helstu viðmið sem í gildi eru:

Fullorðið fé og fengnir gemlingar
0,7 fm
Gemlingar 12 mánaða yngri
0,6 fm
Jöturými fyrir fullorðið fé og fengna gemlinga
40 sm
Jöturými fyrir gemlinga 12 mánaða og yngri
36 sm

Gólfgerð

Rimlar í gólfum skulu ekki vera mjórri en 50 mm og rifubreidd að hámarki 22 mm fyrir fullorðið fé.

Ristagólf skulu hafa slétt yfirborð. Óheimilt er að nota gólfefni með skörpum köntum eða bryggjum sem skaðað getur klaufir eða fótleggi dýranna. Hámarksbreidd gata í ristagólfum skal vera 20 mm.

Loftræsting og hljóðvist

Við hönnun loftræstikerfis skal leitast við að lofthraði umhverfis dýr fari ekki yfir 0,2 m/sek. Lágmarksloftræstingu skal miða við að halda hlutfallslegum raka í fjárhúsinu innan við 80%. Umhverfishiti í húsi skal ekki vera hærri en 10°C hjá fé í ull og 20°C hjá nýrúnu fé. Lágmarkshiti hjá nýrúnu fé á húsi skal vera 5°C. Í nokkrum tilfellum voru loftgæði og/eða hita- rakastig með þeim hætti að engin vafi var á að þar væri þörf á úrbótum.

Hljóðstyrkur skal ekki að jafnaði fara yfir 65 dB.

Gæðastýring

Eins og áður sagði kom út á síðasta ári ný reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu en Matvælastofnun fer með framkvæmd eftirlits í umboði ráðuneytis. Í reglugerðinni er tilskilið að aðbúnaður og meðferð fjárins, auk merkinga, skuli vera í samræmi við lög og reglugerðir þar um. Fjárstofninn skal skráður í skýrsluhaldskerfi sauðfjárræktarinnar, þá skulu þátttakendur í gæðastýringu undantekningarlaust uppfylla skyldur til bólusetningar gegn garnaveiki.

Nýmæli í reglugerðinni er að nú skal umhverfi býlis standast ákveðnar kröfur hvað viðkemur; ástandi girðinga, ástandi umhverfis við mannvirki og umhirðu og uppröðun lausra hluta. 

 

 


Getum við bætt efni síðunnar?