Fara í efni

Dómur um innflutningseftirlit með kjötvörum, eggjum og mjólk

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Fallið hefur dómur hjá EFTA-dómstólnum þess efnis að ákvæði 10. gr. laga nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og ákvæði í reglugerð nr. 448/2012 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins, þar sem kveðið var á um leyfisveitingakerfi fyrir innflutningi á hráum kjötvörum, hráum eggjum og eggjavörum og vörum úr þeim og ógerilsneyddri mjólk, væru ekki í samræmi við ákvæði tilskipunar 89/662/EBE. Í tilskipuninni er kveðið á um að eftirlit með þessum matvælum eigi að fara fram í upprunalandi en ekki á viðtökustað. Dómurinn kveður á um að hinar íslensku reglur feli í sér viðbótartakmarkanir sem samrýmast ekki regluverki EES-samningsins. Dómstóllinn vísaði hins vegar frá kröfu um að bann Íslands við markaðssetningu á ógerilsneyddum ostum bryti gegn tilskipuninni.

Samkvæmt samningi EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls skulu hlutaðeigandi EFTA-ríki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum EFTA-dómstólsins. Íslenska ríkinu ber samkvæmt þessu að breyta lögum og reglum til samræmis við niðurstöðu dómsins. Dóm EFTA-dómstólsins og einnig fyrstu viðbrögð Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins má nálgast hér fyrir neðan.


ÍtarefniGetum við bætt efni síðunnar?