Fara í efni

Dagsektir og stjórnvaldssektir vegna brota á lögum um velferð dýra.

Matvælastofnun hefur á síðustu misserum tekið stjórnvaldsákvarðanir er snúa að brotum og frávikum vegna dýravelferðar. Annars vegar er um að ræða dagsektir og hins vegar stjórnvaldssektir. Dagsektir eru settar til að þvinga fram úrbætur hjá umráðamönnum dýra en stjórnvaldssektir eru hins vegar refsing sem er beitt vegna fullframinna brota.

Ákvörðun um dagsektir að fjárhæð 10.000 kr á dag var tekin í eftirfarandi tilvikum eftir að umráðamenn höfðu ekki brugðist við kröfum stofnunarinnar um úrbætur vegna frávika varðandi dýravelferð.

  • Kúabú á Suðurlandi var með ófullnægjandi frágang og innréttingar í fjósi.
  • Mörg frávik skráð á hrossa- og sauðfjárbúi á Suðurlandi, þ.á.m. vegna klauf- og hófhirðu, innréttingum og slysavörnum var áfátt. Fóðrun sauðfjár var ábótavant, hluti fjár ekki rúið og ekki búið að bólusetja fé.
  • Mörg frávik skráð á kúabúi á Vesturlandi, þ.á.m. vegna óhreininda, að ekki væri til staðar burðarstía með mjúku undirlagi. Fóðrun og klaufhirðu var ábótavant.

Stjórnvaldssektir voru lagðar á í eftirfarandi tilvikum

  • Sláturhús á Suðvesturlandi lét fótbrotinn grís liggja yfir heila helgi í sláturrétt áður en honum var slátrað. Grísinn mun hafa fótbrotnað í flutningi til sláturhússins. Samkvæmt reglum hefði átt að slátra honum strax við móttöku. Stjórnvaldssekt 160.000 kr.
  • Þremur kúabúum á Vesturlandi bar að tryggja nautgripum útivist á grónu landi í samtals 8 vikur sumarið 2023. Það var vanrækt og gripunum þess í stað haldið inni allt sumarið. Stjórnvaldssektir 350.000 kr. – 540.000 kr. (réðst m.a. af fjölda gripanna).
  • Kattareigandi á Vesturlandi dró of lengi að fara með sjúkan kött til dýralæknis þar sem hann var aflífaður. Stjórnvaldssekt 120.000 kr.
  • Fyrirtæki braut dýravelferðarlög við hvalveiðar með því að hálftími leið á milli fyrra skots og síðara skots við veiðar á hval. Dýrið drapst nokkrum mínútum eftir síðara skotið. Samkvæmt reglugerð um hvalveiðar skal án tafar framkvæma endurskot ef dýr drepst ekki við fyrra skot. Stjórnvaldssekt 400.000 kr.
  • Sláturhús á Suðvesturlandi braut dýravelferðarlög með því að einn grís var vegna mistaka ekki sviptur meðvitund fyrir aflífun. Stjórnvaldssekt 145.000 kr.
  • Fiskeldisfyrirtæki á Austfjörðum vegna brota á lögum um dýravelferð með því að hafa ekki staðið rétt að aflífun eldisfiska, þannig að ósvæfðir fiskar fóru í kvörn. Stjórnvaldssekt 418.000 kr.

Getum við bætt efni síðunnar?