Búfé á hættusvæði vegna eldgoss í Grindavík
Í ljósi hættuástands vegna eldgoss í nágrenni Grindavíkur leggur Matvælastofnun áherslu á að allt sauðfé og annað búfé verði flutt burt úr bænum og nágrenni hans hið allra fyrsta.
Þrátt fyrir tilmæli stofnunarinnar frá 26. febrúar 2024 þar sem því var beint til búfjáreigenda að flytja dýr sín ekki aftur til bæjarins vegna viðvarandi hættu á endurteknum eldsumbrotum á Reykjanesi, hafa þó nokkrir fjáreigendur flutt fé sitt til baka til bæjarins og þar er það enn.
Þann 6. mars 2024 sendi stofnunin bréf á Almannavarnir, Lögreglustjórann á Suðurnesjum og alla fjáreigendur í Grindavík þar sem áhersla var lögð á að fé yrði ekki flutt til bæjarins aftur eftir rýmingu í vetur. Og alls ekki lambfullar ær. Þeir dýraeigendur sem fóru ekki að þessum tilmælum eru ábyrgir fyrir velferð sinna dýra.