Fara í efni

Borðæfingin SKYNDIBITI 2024

Þverfagleg borðæfing SKYNDIBITI 2024 var haldin með fjarfundi 30. apríl síðastliðinn. Tilgangur æfingarinnar var að auka þekkingu og skilning þátttakenda á núverandi verklagi við rannsóknir á matarbornum hópsýkingum, varpa ljósi á veikleika og koma auga á tækifæri til úrbóta.

Meðal markmiða var að skýra hlutverk þeirra sem koma að viðbrögðum og rannsóknum á matarbornum hópsýkingum þannig að samskipti gangi vel fyrir sig þegar á reynir. Jafnframt var miðað að því að æfingin myndi draga fram atriði sem þarf að bæta í gildandi leiðbeiningum. Þátttakendur voru fulltrúar frá Matvælastofnun, heilbrigðiseftirliti, sóttvarnalækni, umdæmis- og svæðislæknum sóttvarna, sýkla- og veirufræðideild Landspítala og Matís.

Til undirbúnings fengu þátttakendur sendar upplýsingar um skipulag æfingarinnar og lýsingu á þeim tilkynningum sem taka átti fyrir. Um var að ræða tvær tilkynningar sem bárust MAST annars vegar og heilbrigðiseftirlits hins vegar um einkenni frá meltingarvegi (niðurgangur, kviðverkir, hiti) sem viðkomandi einstaklingar tengdu við neyslu tiltekinna matvæla. Þar sem fyrsta upplýsingaöflun leiddi í ljós hugsanleg tengsl milli þessara tilkynninga var ákveðið að boða til fjarfundar til samráðs um hvort ástæða væri til að rannsaka málið sem hugsanlega matarborna hópsýkingu.

Um fimmtíu manns tóku þátt, annaðhvort sem virkir þátttakendur eða til að fylgjast með. Á æfingunni komu fram ýmsar ábendingar og vangaveltur um gildandi verklag en ekki var talin þörf á heildarendurskoðun á núgildandi leiðbeiningum sem voru uppfærðar í júní 2023. Sú endurskoðun fór fram í kjölfarið á æfingunni MATUR 2022 sem haldin var með fjölmörgum hagaðilum.

Samkvæmt þeirri endurgjöf sem hefur borist um æfinguna SKYNDIBITI 2024 var almenn ánægja með framkvæmd æfingarinnar og margir hafa nú betri þekkingu á málaflokknum og gildandi verklagi. Fram kom áhugi á því að skipuleggja aðra æfingu á næstu misserum.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?