Fara í efni

Blóðtökuhryssur - viðbrögð við ábendingum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun heldur áfram rannsókn á meintum alvarlegum brotum á velferð blóðtökuhryssna, sem nýlega var vakin athygli á.  Stofnunin vinnur jafnframt að endurskoðun á þeim skilyrðum sem sett eru fyrir starfseminni og eftirliti með henni.  Ábendingar um alvarleg dýravelferðarbrot eru ávallt teknar mjög alvarlega hjá stofnuninni.

Matvælastofnun þakkar dýravelferðarsamtökunum AWF/STB fyrir veitta aðstoð við rannsóknina og hefur opið bréf, sem samtökin sendu frá sér 1. desember, til hliðsjónar. Stofnunin tekur undir með samtökunum að mikilvægt sé að rannsóknin beinist ekki síst að kerfisbundnum veikleikum í starfseminni sem geta komið niður á velferð hryssnanna.

Samkvæmt lögum um velferð dýra fer Matvælastofnun með rannsókn dýravelferðarmála hér á landi. Að rannsókn lokinni getur stofnunin lokið málum með stjórnvaldssektum eða vísað málunum til lögreglu.

Matvælastofnun styður að heildstæð umræða fari fram um framtíð greinarinnar en telur mikilvægt að í þeirri umræðu sé ekki gripið til skyndiákvarðana. Slík ákvörðun gæti stefnt velferð allt að 5000 hryssna í voða, m.a. væri þá hætt við að fjöldi hryssna kæmi til slátrunar seint á meðgöngu.  

Að lokum er vakin athygli á að allar ábendingar er varða velferð dýra er hægt að senda Matvælastofnun í gegnum ábendingarkerfi stofnunarinnar á vefsíðu hennar, www.mast.is.


Getum við bætt efni síðunnar?