Fara í efni

Beitartilraun í Skutulsfirði í samræmi við ályktun sérfræðihóps MAST

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Matvælastofnun (MAST) skipaði í byrjun ársins 2011 sérfræðihóp til að meta áhrif díoxínmengunar á framtíð búskapar í Skutulsfirði. Hópurinn skilaði á vordögum skýrslu, þar sem m.a. var lagt til að gerð yrði beitartilraun til að meta hugsanlega mengun á svæðinu. Tilraunina styrktu MAST og Landssamtök sauðfjárbænda.

     MAST hafa nú borist niðurstöður tilraunarinnar. Þær eru jákvæðar hvað varðar framtíð sauðfjárbúskapar og jafnframt í samræmi við helstu ályktanir sérfræðihópsins, sem voru þær að mengun væri á svæðinu og endurmengun frá lausum ögnum gæti sennilega átt sér stað. Jafnframt taldi sérfræðihópurinn að án beitartilraunar væri ekki óhætt að hleypa afurðum á markað, nema að fram færu ítarlegar rannsóknir á afurðum fyrir markaðssetningu.

Í stuttu máli virðist ekki tilefni til að ætla að sauðfé taki lengur upp mikið magn díoxíns í gegnum beitina á svæðinu, þó svo mengun sé enn til staðar. Jafnframt má ætla að áfram dragi úr mengun á svæðinu þar sem mengunarvaldur er ekki lengur til staðar. Rannsóknaniðurstöður sýna nú ekki mengun yfir aðgerðarmörkum eða hámarksgildum, eins og sjá má á eftirfarandi.

Niðurstöður rannsóknarinnar

Fyrir lömb er um marktæka hækkun að ræða í díoxíni miðað við bakgrunnsgildi frá 2003/2004. Ekki er marktækur munur á ám og lömbum. Fyrir lömb er um að ræða nálægt þreföldun í styrk að meðaltali í beitartilraun samanborið við bakgrunnsgildi. Styrkur díoxíns er þó ávallt lægri en leyfilegt hámarksmagn og er hæsta gildið um 60% af aðgerðarmörkum* og um 30% af hámarksgildi** fyrir díoxín.

Eins og í tilviki díoxíns er ekki marktækur munur á ám og lömbum er varðar díoxínlík PCB-efni. Hæsta gildi á díoxínlíkum PCB-efnum er aðeins um 20% af aðgerðarmörkum og hæsta gildið á samtölu díoxíns og díoxínlíkra PCB-efna er aðeins um 23% af hámarksgildinu. Lifrarsýni sýnir áþekka hegðun og kjötið.

Framhald málsins

Tilraunin sýnir að svæðið henti aftur til fjárbúskapar og annars búfjárhalds, en að vakta þurfi afurðir í fyrstu ef aftur kemur til búskapar á svæðinu, sérstaklega er varðar kýr og hross.

Matvælastofnun telur því rétt að taka málið til meðferðar að nýju og aflétta banni á nýtingu fóðurs frá svæðinu. Í því felst að heimilt verði að afla heyja fyrir allan búfénað og nýta landið til beitar fyrir búfé.

Nánari upplýsingar veitir Kjartan Hreinsson hjá Matvælastofnun í síma 530 4800 eða GSM 8580874.

* Aðgerðamörk; fari matvæli yfir þessi mörk, ber að leita uppsprettu og draga úr mengun með það að markmiði að minnka losun út í umhverfið.
** Hámarksgildi; hæsta leyfilega gildi í matvælum skv. reglugerð.

Ítarefni




Getum við bætt efni síðunnar?