Fara í efni

Bandormahreinsun hunda

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nýverið greindist vöðvasullur í sláturlambi hér á landi. Um er að ræða lirfustig bandormsins Taenia ovis, sem lifir í hundum og refum. Þessi ormur smitar ekki fólk en sullir hans í sauðfé geta valdið óþægindum fyrir féð og tjóni vegna skemmda á kjöti. Þetta leiðir hugann að öðrum og verri ormi sem tekist hefur að útrýma hér á landi, sullaveikibandorminum Echinococcus granulosus, og jafnframt bandorminum Echinococcus multilocularis, sem aldrei hefur greinst hér á landi. Matvælastofnun hvetur fólk til að láta bandormahreinsa hundana sína reglulega og koma eins og kostur er í veg fyrir að þeir komist í hrátt kjöt og sláturúrgang.

Þessir ormar lifa á fullorðinssstigi í hundum og refum. Vöðvasullsbandormurinn smitar ekki fólk en það gera aftur á móti sullaveikiormarnir. Vöðvasullur greindist fyrst hér á landi í lömbum árið 1983. Á árunum fram að 1990 sást töluvert af þessum sulli í sauðfé en síðan hafa aðeins fundist stök tilfelli. Sullaveiki, sem var um aldir vel þekkt hér á landi, hefur ekki greinst í sauðfé síðan árið 1979, þökk sé fræðslu um smitleiðir og lögbundinni hundahreinsun. Greining vöðvasulls í sláturlambi nú, sem hefur sams konar lífsferil og sullaveikibandormurinn, gefur vísbendingu um lifandi bandorma í hundum eða refum og sýnir að ekki má sofna á verðinum. 

Sullaveikibandormurinn Echinococcus granulosus finnst í þörmum hunda, refa og skyldra rándýra. Örsmá egg hans finnast í saur þessara dýra.  Ef búfé eða fólk innbyrðir eggin, klekjast út lirfur og berast með blóðrás til ýmissa líffæra og mynda þar blöðrur (sulli). Fólk með sullaveiki (e. cystic echinococcosis) getur verið einkennalaust um langan tíma, þangað til sullurinn er orðinn það stór að hann fer að valda óþægindum. Einkennin byggjast á því hvar í líkamanum sullurinn er staðsettur. 

Lífsferill bandormsins sem veldur sullaveikifári (e. alveolar echinococcosis), Echinococcus multilocularis, er svipaður en hann veldur mun alvarlegri sjúkdómseinkennum og jafnvel dauða. 

Myndin hér að neðan sem fengin er af vefsíðu smitvarnastofnunar Bandaríkjanna, CDC, lýsir lífsferli sullaveikibandormanna.

Sullaveikibandormurinn er útbreiddur um allan heim en sá sem veldur sullaveikifári er frekar að finna á norðlægum slóðum. Hann hefur verið að breiðast út um norðanverða Evrópu á síðustu áratugum og finnst helst í rauðref, en hann heldur sig oft í nálægð við mannabústaði. Rauðrefur fyrirfinnst ekki á Íslandi.

Það er mikils um vert að halda landinu lausu við þessi sníkjudýr, sem önnur framandi smitefni. Þau geta m.a. borist með innflutningi á lifandi dýrum en reynt er að koma sem best í veg fyrir það með ormalyfjagjöf bæði fyrir innflutning og meðan dýrin dvelja í einangrunarstöð.

Samkvæmt reglugerð um hollustuhætti nr. 941/ 2002 er skylt að ormahreinsa hunda árlega, sjá hér að neðan. 


 

Vövðasullur lífsferill

Fullorðinn liðskiptur sullaveikibandormur Echinococcus granulosus (3 til 6 mm langur) (1) lifir í smáþörmum lokahýsla sem eru hundar, refir og önnur dýr af hundaætt (canidae). Örsmá egg sem eru í bandormsliðum (2) og skiljast út með saur. Þegar millihýsill (sauðfé, geitur, svín, nautgripir, hross, kameldýr) innbyrðir egg klekkst lirfa úr egginu (3) sem smýgur í gegnum þarmavegginn og ferðast um blóðrásarkerfið til ýmissa líffæra en þó aðallega lifrar og lungna. Í þessum líffærum breytist lirfan í vökvafyllta blöðru (sull) (4)  sem stækkar smám saman og inni í henni myndast fjöldi bandormshausa og nýrra blaðra. Lokahýsillinn smitast við að innbyrða líffæri smitaðra millihýsla sem innihalda blöðrur. Í lokahýslinum losna bandormshausarnir (5)  úr blöðrunum og festa sig við slímhúð smáþarmanna (6) og þroskast í fullorðna bandoma   (1) á 32 til 80 dögum.
Lífsferill sullafársbandorms E. multilocularis (1.2 til 3.7 mm) er sams konar, með eftirtöldum frávikum: Lokahýslar eru refir, og í minna mæli hundar, kettir og úlfar; millihýslar eru einkum lítil nagdýr; og fjölgun lirfa (í lifrinni) heldur áfram um ótakmarkaðan tíma, sem leiðir til innrásar í aðliggjandi vefi. Fólk smitast við að innbyrða bandormsegg (2), sem lirfa klekkst úr (3) í þörmunum og blöðrur (sullir) myndast (4), (4), (4), (4), (4), (4)  í ýmsum líffærum.
Heimild: CDC

Reglugerð um hollustuhætti

Í 57. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002 kemur eftirfarandi fram um hunda:
 
Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum bandorma og spóluorma í hundum.
Til hreinsunar hunda gegn bandormum og spóluormum skal  nota ormalyf sem Lyfjastofnun hefur viðurkennt til þeirra nota.

Eiganda eða umráðamanni hunds er skylt að láta ormahreinsa hund sinn árlega.  Hann ber allan kostnað af hreinsun hundsins, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags. 

Skylt er að ormahreinsa alla hunda fjögurra mánaða og eldri. Þar sem búrekstur er skulu hundar ormahreinsaðir að liðinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags. 

Nýgotnar tíkur og 3 – 4 vikna hvolpar skulu spóluormahreinsaðir sérstaklega samkvæmt leiðbeiningum dýralæknis. Hundeigandi skal framvísa vottorði um spóluormahreinsun við skráningu hundsins. 

Ef ekki er kveðið á um annað í samþykkt viðkomandi sveitarfélags skal eigandi eða umráðamaður hunds geyma hreinsunarvottorð í þrjú ár og framvísa til eftirlitsaðila ef óskað er.  Heilbrigðisnefnd getur í samráði við embætti yfirdýralæknis, heimilað að vottorð frá öðrum en dýralækni verði viðurkennd, ef sérstakar aðstæður krefjast þess. 

Að öðru leyti gilda ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga.  Setji sveitarfélag sér samþykkt um hundahald skal í henni kveða á um hreinsun hunda, ábyrgðartryggingar og merkingu.

Ítarefni



Getum við bætt efni síðunnar?