Fara í efni

Ávinningur af aðgerðum Matvælastofnunar vegna salts

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
   Eftirlitsmenn Matvælastofnunar komust að því við eftirlit í matvælafyrirtæki að þar væri til notkunar salt sem ekki er framleitt sérstaklega til notkunar í matvælaiðnaði. Fyrirtækið hafði keypt þetta salt af dreifingaraðila sem er undir eftirliti Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Viðbrögð Matvælastofnunar voru þau að kanna strax um hvaða salt væri að ræða og hvort efnasamsetning þess væri þess eðlis að hætta stafaði af fyrir neytendur. Svo reyndist ekki vera, en að mati stofnunarinnar er ekki ásættanlegt að nota annað salt við matvælaframleiðsu en það sem sérstaklega er framleitt til þeirrar notkunar. Slíkt salt uppfyllir ströngustu skilyrði um hreinleika og alla meðferð. Matvælafyrirtæki eiga að tryggja góða framleiðsluhætti og öryggi vöru fyrir neytendur og notkun á salti, hráefnum, aukefnum og öðrum efnum á því að vera í samræmi við skilyrði matvælalöggjafar. Þetta eru atriði sem taka þarf á í innra eftirliti fyrirtækja og opinberir eftirlitsaðilar þurfa að fylgjast með.

Stofnunin hefur verið gagnrýnd fyrir að hafa ekki gert athugasemd við dreifingu á takmörkuðum birgðum af þessu salti hjá dreifingaraðila vörunnar. Matvælastofnun tekur þessa gagnrýni alvarlega, en ákvörðun hennar var tekin í ljósi þess að ekki væri um varasama vöru að ræða og eingöngu með því skilyrði að matvælafyrirtæki sem keyptu vöruna væru upplýst og gerðu ekki athugasemd. Salt þetta hefur verið í dreifingu í mörg ár án athugasemda af hálfu eftirlitsaðila. Því tilkynnti Matvælastofnun málið til heilbrigðiseftirlits um allt land og hefur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur síðan fylgt málinu eftir þar sem dreifingaraðilinn hefur starfsleyfi og er undir daglegu eftirliti þess.

Því verður að halda til haga að mál þetta kom upp vegna árvekni eftirlitsmanna Matvælastofnunar og þeirra viðbragða sem stofnunin sýndi í beinu framhaldi af athugun á framleiðslu og samsetningu vörunnar. Hefði stofnunin ekki gripið til þeirra aðgerða má leiða líkur að því að salt þetta væri enn til dreifingar og þar með notkunar í matvælaiðnaði. Svo er ekki lengur og var aðeins takmörkuðu magni birgða dreift til fyrirtækja eftir að málið kom upp og ekki ólíklegt að það hafi verið vegna upplýsinga sem dreifingaraðili var skyldaður til að veita matvælafyrirtækjum. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur heimilar ekki frekari sölu vörunnar og hefur jafnframt tryggt að fyrirtækið uppfylli öll skilyrði sem sett voru um upplýsingaskyldu gagnvart matvælafyrirtækjum.

Matvælastofnun lagði einnig til við Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að hlutast yrði til um að Ölgerðin, sem flutti inn saltið og dreifði til matvælafyrirtækja, kæmi með almennar upplýsingar um málið þannig að það yrði gert opinbert. Þessu hafnaði fyrirtækið. Í framhaldi af því birti Matvælastofnun frétt á vefsíðu sinni þar sem koma fram nánari upplýsingar um það salt sem hér var í notkun. Stofnunin harmar hins vegar að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur skuli í framhaldi af þessu koma með harða gagnrýni á störf Matvælastofnunar í fjölmiðlum og þá sérstaklega í ljósi þess að engin athugasemd hefur verið gerð við sölu vörunnar til margra ára frá dreifingarfyrirtæki sem er undir þeirra eftirliti, fyrr en Matvælastofnun tók málið upp.


Matvælastofnun telur að mál þetta gefi tilefni til að skipuleggja sameiginlegt eftirlitsverkefni þar sem stofnunin og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga kanna efnanotkun matvælafyrirtækja og aðra þætti innra eftirlits sem þeim ber að starfrækja til að tryggja örugg matvæli fyrir neytendur.


Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?