Aukin velferð keppnishesta
Út er komin skýrsla um niðurstöður heilbrigðisskoðana á keppnis- og kynbótahrossum á Landsmóti hestamanna (LM) og Íslandsmóti í hestaíþróttum (ÍM) 2014.
Greinilega hefur dregið úr tíðni áverka í munni frá árinu 2012. Ætla má að sú vitundarvakning sem átt hefur sér stað um heilbrigði munnsins, einkum eftir að niðurstöður frá árinu 2012 voru kynntar, séu meginástæðan fyrir lækkun á tíðni áverka í munnvikum og kinnum.
Áberandi minna var um alvarlega áverka yfir kjálkabeini á tannlausa bilinu og ekki þörf á að vísa neinum hesti frá keppni af þeim sökum. Enginn vafi leikur á að bann við notkun stangaméla með tunguboga í keppni á þar stærstan hlut að máli enda er sambærilega þróun ekki að sjá meðal kynbótahrossa þar sem mélin eru enn í notkun.
Velferð keppnishesta er afstætt hugtak sem hefur margar hliðar. Áverkar í munni eru aðeins einn mælikvarði af mörgum. Fremur auðvelt er að greina áverka í munni og bera niðurstöðurnar saman frá einum tíma til annars og þar sem þeir endurspegla nokkuð vel samspil manns og hests, eru þeir á margan hátt góður mælikvarði en alls ekki það eina sem skiptir máli eða líta ber til.
Mikilvægt er að vandaðar heilbrigðisskoðanir verði áfram framkvæmdar á Landsmótum og Íslandsmótum. Aðeins með því móti er mögulegt að fylgjast með áhrifum hvers konar breytinga sem verða í reiðmennsku, búnaði og dómgæslu á velferð hestanna.
Vísindagrein um áverka í munni íslenskra keppnishesta „Bit-related lesions in Icelandic competition horses“ hefur nú verið birt í rafrænni útgáfu í ritinu Acta Veterinaria Scandinavica. Opinn aðgangur er að greininni sem er að finna á slóðinni: http://www.actavetscand.com/content/pdf/s13028-014-0040-8.pdf
Greinin er byggð á gögnum frá heilbrigðisskoðunum á Landsmóti hestamanna og Íslandsmóti í hestaíþróttum árið 2012. Áverkar í munni hesta sem rekja mátti til þrýstings frá mélum reyndust algengir. Alvarlegustu áverkana var að finna yfir og á tannlausa bilinu á kjálkabeini neðri kjálka. Sterk og hámarktæk tengsl voru á milli notkunar á stangamélum með tunguboga og áverka á kjálkabeini. Ríflega helmingur þeirra hrossa sem hafði verið riðið við stangamél með tunguboga voru með áverka á kjálkabeini fyrir úrslit, í flestum tilfellum alvarlega. Þessir áverkar voru nánast ekki til staðar hjá hrossum sem hafði verið riðið við aðrar gerðir méla. Notkun á stangamélum með tunguboga reyndist auka hættuna á áverkum á kjálkabeini 75 falt miðað við notkun á öðrum mélum. Marktæk aukning kom einnig fram á tíðni og alvarleika áverka á kjálkabeini á milli fyrstu skoðunar (fyrir fyrstu forkeppni) og síðustu (fyrir síðustu úrslit) sem endurspeglar áhrif þess að mélin voru notuð í keppni. Tunguboginn kemur í veg fyrir að tungan nái að dempa þrýstinginn frá mélunum sem lendir þá á hinum viðkvæmu kjálkabeinum.