Fara í efni

Aukanámskeið um merkingu matvæla

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Vegna mikillar eftirspurnar hefur Matvælastofnun ákveðið að halda aukanámskeið fyrir matvælaframleiðendur um merkingu matvæla fimmtudaginn 21. mars kl. 13-16 í Inn- og útflutningsskrifstofu stofnunarinnar að Stórhöfða 23, 110 Reykjavík. 

Á námskeiðinu verður fjallað almennt um hvernig merkja á matvæli. Áhersla verður lögð á innihaldslýsingar, magnmerkingar, upprunamerkingar og auðkennismerki. Einnig verður fjallað um næringargildismerkingar og næringar- og heilsufullyrðingar, með sérstakri áherslu á heilsufullyrðingar.

Í eftirlitsverkefni Matvælastofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga frá árinu 2011 um innihaldslýsingar matvæla og uppskriftir þeirra kom í ljós að í 16% tilfella komu ekki öll innihaldsefni uppskriftar fram í innihaldslýsingu á umbúðum. Þá voru nýlega birtar niðurstöður norræns eftirlitsverkefnis um merkingar matvæla í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi á tímabilinu 2010 til 2012. Þær sýna að fimmta hver vara var ekki rétt merkt og að innihaldið passaði ekki við innihaldslýsingu í 9% tilfella. Jafnframt sýnir ný úttekt Matvælastofnunar á 16 matvörum í verslunum að engin þeirra uppfyllti allar kröfur um merkingar. 

Matvælafyrirtæki bera ábyrgð á eigin framleiðslu og upplýsingagjöf til neytenda. Rétt merking matvæla er mikið hagsmunamál fyrir neytendur og geta rangar merkingar m.a. verið varasamar þeim sem eru með matarofnæmi eða óþol. 

Námskeiðið er ætlað starfsfólki matvælafyrirtækja og er ókeypis. Skráning fer fram á netfanginu mast@mast.is. Vinsamlega takið fram nafn, fyrirtæki og dagsetningu námskeiðs: 21. mars

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?